Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Mig langar sérstaklega að gera að umtalsefni 173% hækkun á úrvinnslugjaldi fyrir heyrúlluplast, eins og segir hér í c-lið 28. gr., í stað 30 kr. á kílógramm kemur 82 kr. á kílógramm, sem er 173% hækkun. Einhvers staðar þarf auðvitað að hækka tekjur ríkissjóðs til að ná þessu Íslandsmeti sem nú er sett í heildarútgjaldaauka en 173% er býsna vel í lagt þykir mér.

Í greinargerð með frumvarpinu segir í 28. gr., með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er lagt til að úrvinnslugjald á umbúðir hækki vegna hærri tilkostnaðar við sértæka söfnun …“

Síðan segir hér í nefndaráliti meiri hluta sem hv. þingmaður fór yfir hér áðan, með leyfi forseta:

„Hækkun á úrvinnslugjaldi fyrir heyrúlluplast er umtalsverð. Sú hækkun getur orðið bændum íþyngjandi, en óvíst er hvernig verð á þessari mikilvægu rekstrarvöru bænda þróast næstu mánuði.“

Nú verð ég að spyrja hv. þingmann og framsögumann nefndarálits meiri hluta: Hvaða greining liggur þarna að baki? Vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í opinberum gögnum þá skilar heyrúlluplast sér í öllum meginatriðum til endurvinnslu eða a.m.k. frá bændum. Hvað er það sem kallar á 173% hækkun? Af því það er ekki vinnslan. Það er talað hér sérstaklega um að þetta snúi að sértækri söfnun og það virðast engin vanhöld á söfnuninni. Það er bara spurning hvort sótt er einu sinni í mánuði eða á 12 mánaða fresti. Þessi 173% hækkun þarfnast frekari skýringa sem koma alls ekki fram í greinargerð um 28. gr. eða þá í því máli sem hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir fyrr í dag.