Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. 8. þm. Norðvest. fyrir spurninguna. Það er rétt að þetta mál, þessi hækkun á gjöldum á heyrúlluplasti, úrvinnslugjaldi — ég ætla bara að vera heiðarleg með það við hv. þingmann, forseti, að það olli nefndinni heilabrotum vegna þess að við vildum síst að það væri að auka álögur á bændur þegar við vitum að rekstrarumhverfi bænda er búið að vera gríðarlega erfitt, sérstaklega síðasta árið en sömuleiðis í gegnum Covid-heimsfaraldur. Gjaldið er að hækka úr 30 kr. í 82. Raunkostnaðurinn aftur á móti við það að vinna þetta er 120 kr. Núna um áramót taka gildi lög um Úrvinnslusjóð sem sett voru hér á hinu háa Alþingi árið 2021, ef ég man rétt, um vorið, sem leggja þá skyldu á framleiðendur og innflytjendur að það verður að vera raunkostnaður sem fylgir förgun. Raunkostnaðurinn í þessu tilfelli er 120 kr. en þarna eru bændur að greiða 80.

Ég ætla að ítreka það að þetta þótti okkur allt of mikil hækkun og við leituðum allra leiða til að milda hana en þá hefðum við þurft að fara að brjóta önnur lög sem er okkur þvert um geð að gera. Þess vegna beinir meiri hlutinn því til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að komið verði til móts við bændur vegna þessara hækkana og það metið með hagsmunaaðilum hvernig söfnun og endurvinnsla á heyrúlluplasti geti verið sem hagkvæmust til framtíðar. En það er ljóst að þessu plasti þurfa bændur að safna saman en það verður sótt til þeirra.