Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga, eða hinn svokallaða bandorm eins og við köllum hann oft hér á þinginu, frá 4. minni hluta, eins og ég, sem hér stend, er kölluð í þessu tilfelli. Ég vildi nú ekki nýta allan minn ræðutíma hér en mig langar að gera nokkrar athugasemdir og reifa aðeins þetta nefndarálit og þær breytingartillögur sem ég legg til við þetta mál.

Til að byrja með langar mig að benda á að í nefndaráliti meiri hlutans má sjá að fyrsta blaðsíðan í því, svo gott sem öll blaðsíðan, fer í að telja upp alla þá gesti sem komu fyrir nefndina. Þeir voru fjölmargir. Ég vek athygli á því vegna þess að síðan er nefndarálitið í raun bara tvær og hálf blaðsíða og bregst ekki að neinu marki við öllum þeim ábendingum sem fram komu frá öllum þessum fjölda gesta, kannski sér í lagi ekki alvarlegustu ábendingum sem komu frá öllum þessum gestum. Við fengum 38 umsagnir frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum um þetta mál sem margar hverjar voru með mjög alvarlegar athugasemdir um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar gagnvart tekjubandorminum, eins og hann er kallaður, og það er ekkert brugðist við þeim í þessu nefndaráliti meiri hlutans. Í öllum þessum umsögnum er t.d. mjög skýr afstaða gegn þessari 7,7% hækkun á öllum þessum krónutölugjöldum og mjög sterk og góð rök færð fyrir því af hverju þetta er vond hugmynd í alla staði. Þetta mun hækka vísitölu neysluverðs, þetta mun hafa á fasteignalán, þetta mun hafa neikvæð áhrif á tekjuminnstu hópana í samfélaginu, þyngstu áhrifin á þá, og léttustu áhrifin á þá sem mestar tekjurnar hafa. Hver umsögnin á fætur annarri bendir á þessa staðreynd en því er ekki einu sinni svarað í þessu nefndaráliti, þessu þriggja blaðsíðna nefndaráliti, og þegar ég segi blaðsíður þá eru það A-5 síður sem við notumst við í þinginu. Það er bara látið eins og allar þessar ábendingar hafi ekki komið fram, eins og það þurfi ekki að svara þeim, kannski vegna þess að það er ekkert svar við þessu annað en: Víst ætlum við að gera það, þó að það sé vond hugmynd. Það er svarið. Það er í raun líka svarið við svo mörgum öðrum athugasemdum sem hafa komið fram, auðvitað, því að þetta sé rosalega óskilvirk aðferð til þess að beita skattkerfinu gegn þenslu og gegn verðbólgu, en líka að þetta komi verst niður á tekjulægstu heimilunum og tekjulægri heimilunum. Og eins og ég segi, þetta er ekkert rökstutt af meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í nefndaráliti hennar. Þá velti ég fyrir mér: Til hvers er fólk að senda ítarlegar og vel rökstuddar umsagnir til þingsins ef það er bara látið eins og þær hafi ekki einu sinni komin fram?

Annað atriði sem mér finnst einmitt að hefði mátt svara í nefndaráliti meiri hlutans og er ekki svarað er þessi tillaga um að dregið sé úr þeim afslætti sem gildir í tollfrjálsum verslunum þannig að verið er að breyta áfengisgjaldi í Fríhöfninni úr 10% í 25%. Við höfum fengið fjölmarga mjög flotta gesti sem hafa útskýrt að þarna er mjög stór tekjulind fyrir innlenda framleiðendur á áfengi þar sem ferðamenn sérstaklega, en líka Íslendingar, kaupa íslenska framleiðslu. Þetta er bara mjög stór tekjulind, sérstaklega fyrir smærri innlenda framleiðendur á áfengi. Þessar ábendingar eru allar bara hunsaðar, ábendingar eins og t.d. gagnvart því að þetta muni hafa þau áhrif að verslun í Fríhöfninni færist bara yfir í önnur lönd. Það er nú þegar dýrara að versla í Fríhöfninni en í öðrum fríhöfnum og núna verður það þannig að öllum líkindum eftir áramót, verði þetta samþykkt, að það mun bara draga verulega úr verslun í Fríhöfninni vegna mikils verðmunar. Þess vegna má draga það í efa að þetta skili ríkissjóði einhverjum 700 milljónum í kassann þegar það er ekkert búið að taka tillit til þeirra áhrifa sem þetta mun hafa á eftirspurn á vörum í Fríhöfninni, og þá sérstaklega gagnvart þessum smáu, innlendu framleiðendum.

Áður en ég sný mér að mínu eigin nefndaráliti, virðulegi forseti, vildi ég aðeins tala um breytingar á skattlagningu ökutækja og hvaða áhrif það mun hafa á fyrirætlanir stjórnvalda gagnvart því að vinna að orkuskiptum. Það er t.d. verið að leggja til álagningu lágmarksvörugjalds á alla fólksbíla og það er líka verið að leggja til tvöföldun á lágmarksfjárhæð bifreiðagjalds. Þetta skemmir fyrir orkuskiptahvötunum í kerfinu okkar og er ekki jákvætt inn í þau markmið sem ríkisstjórnin segist a.m.k. vera með þegar kemur að orkuskiptum. Og svo við höldum áfram með það og ég geti farið að snúa mér að mínu eigin nefndaráliti þá finnast mér ekki færð nógu góð rök fyrir því hvers vegna þetta er talið ásættanlegt af meiri hlutanum í nefndaráliti hans þó að það sé vissulega einhver umfjöllun um þetta þar, öfugt við hina þættina sem ég minntist á.

En svo ég snúi mér að mínu eigin nefndaráliti þá vildi ég bara taka undir með þeim félögum mínum úr stjórnarandstöðunni sem hafa tekið til máls hérna. Við erum með sameiginlegar breytingartillögur sem ég styð að sjálfsögðu líka og hefur nú verið gerð alveg ágætlega góð grein fyrir. Ég mun ekki fara í einhverjar ítarlegar útskýringar á þeim hér af því að það er búið að ræða þær umtalsvert. Ég vísa bara til þeirra hv. þingmanna sem hafa komið hér á undan mér úr stjórnarandstöðunni, þ.e. úr minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en tek auðvitað undir að áherslan í þeim breytingartillögum er að verja almenning fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana, annars vegar með auknum stuðningi við skuldsett heimili í gegnum vaxtabótakerfið og hins vegar með því að falla frá þessari miklu hækkun á krónutölugjöldum sem ríkisstjórnin er að leggja til, og ljóst er, eins og ég hef komið inn á, að mun koma verst niður á tekjulægri heimilum landsins og hefur minnst áhrif á tekjuhæstu heimilin. Þar að auki leggjum við til ráðstafanir á tekjuhliðinni sem eru til þess fallnar að bæta afkomu ríkissjóðs og sporna gegn þenslu. Þar erum við að tala um hækkun á fjármagnstekjuskatti sem er algerlega augljóst skref þegar það er methagnaður í fjármagnstekjum ár eftir ár núna í gegnum kórónuveirukreppuna þar sem er augljóst að fjármagnseigendur eru búnir að mokgræða á kórónuveirukreppunni og við ætlum ekki einu sinni að skattleggja það almennilega.

Það að verja almenning og heimili fyrir efnahagslegum þrengingum ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda þegar kreppir að. Á þetta sérstaklega við um tekjulágar fjölskyldur og meðaltekjufjölskyldur. Því miður ber frumvarpið, auk fjárlagafrumvarpsins sem stefnt er að því að afgreiða ekki með sér að aðgerðirnar hafi verið mótaðar með hag þessara hópa að leiðarljósi. Ríkisstjórnin hefði auðvitað átt að grípa til annarra aðgerða … [Kliður í þingsal.] — Alltaf verið að spjalla hérna í hliðarsal hérna, virðulegi forseti. — Það hefði átt að grípa til annarra aðgerða til að draga úr verðbólgu sem veltu meira ábyrgðinni yfir á hærri tekjuhópa, eins og af þessari hækkun á fjármagnstekjuskatti sem ég var að vísa í hérna áðan og er lögð til í sameiginlegri breytingartillögu stjórnarandstöðunnar. Okkur finnst auðvitað miður að slíkt hafi ekki verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar og þess vegna leggjum við þetta til.

Þegar kemur að aðgerðum í þágu loftslagsmála þá verða þær æ mikilvægari og sífellt meira aðsteðjandi eftir því sem loftslagsváin verður alvarlegri. Hún verður alvarlegri með hverjum deginum og mánuðinum sem líður í aðgerðaleysi, bæði þessarar ríkisstjórnar og í raun nánast allra ríkisstjórna heimsins. Þess vegna verður forgangsröðun fjármuna ríkisins í okkar samhengi hérna á Íslandi gríðarlega mikilvæg, hún skiptir rosalega miklu máli þegar kemur að árangri í þessari baráttu við loftslagsvána.

En ef við tökum þetta saman, virðulegi forseti, ef við horfum á heildarmyndina hérna á Íslandi, ef við horfum á hvað aðgerðir, hinar svokölluðu grænu áherslur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa skilað á síðustu árum þá hafa þær leitt til þeirrar ótrúlegu niðurstöðu að á milli áranna 2020 og 2021 jókst losun gróðurhúsalofttegunda um 3% — hún jókst um 3%. Þetta sýnir auðvitað svart á hvítu það sem loftslagsráð hefur bent á, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ómarkvissar og ekki í samræmi við viðvaranir IPCC. Ríkisstjórnin virðist því algerlega ófær um að forgangsraða fjármunum í þágu loftslagsaðgerða á skynsamlegan hátt.

Þetta ber þessi tekjubandormur með sér, virðulegi forseti. Svo við tökum nú gott dæmi þá hefur kostnaður ríkisins af ívilnunum vegna vistvænna bifreiða numið tugum milljarða króna síðastliðin ár. Efnahags- og viðskiptanefnd kallaði eftir minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um upplýsingar er varða dreifingu virðisaukaskattsívilnana á mismunandi orkugjafa og mismunandi tekjutíundir í vinnu sinni á 152. löggjafarþingi. Talnagögnin bera með sér að nýting ívilnana eykst verulega eftir því sem tekjur aukast, þ.e. að ríkari helmingur landsmanna nýtur þessara ívilnana umtalsvert meira en fátækari helmingur landsins eða þeir sem eiga minna af peningum, hafa minna á milli handanna. Þannig nýtast 47% allra ívilnana fyrir vistvæna bíla í efstu tekjutíundinni þegar um einstakling er að ræða, en 24% þegar um fjölskyldur að ræða. Þar af leiðandi er augljóst að ívilnunin nýtist í mun meira mæli hátekjuhópum en þeim sem hafa lægri tekjur og stríðir það þess vegna gegn réttlátum umskiptum í orkuskiptum. Þetta er auðvitað vegna þess að rafmagnsbílar eru mjög dýrir, þeir eru enn þá flestir nýir þegar fólk kaupir þá og þeir kosta umtalsvert meira en aðrir bílar í mörgum tilfellum. Í þessum ívilnunaraðgerðum hefur verið litið fram hjá því að það er töluvert úrval af öðrum vistvænum ökutækjum, ekki þessum tengiltvinnbílum sem geta mengað jafn mikið ef ekki meira en venjulegir sparneytnir bensínbílar, heldur t.d. metanbílar sem ég hef áður lagt til að eigi að njóta þessara ívilnana og ég kem betur að á eftir smástund.

Það er mikilvægt að stuðla að því að ívilnun til orkuskipta dreifist jafnar á aðrar tekjutíundir og þess vegna leggjum við einnig til að þessi ívilnun nái til ódýrari vistvænna ökutækja eins og metanbíla. Að efla aðgengi allra tekjuhópa að vistvænum orkugjöfum er rosalega mikilvægur þáttur í réttlátum umskiptum og ég tel því rétt að gera tillögur þess efnis. Það verður líka að gera athugasemdir við að þetta ívilnanakerfi taki ekki til mikilvægis þess að fækka bílum í umferð til að bregðast við sívaxandi loftmengun og álagi á vegakerfið. Af framleiðslu vistvænna bíla skapast töluvert sótspor líkt og við framleiðslu annarra ökutækja. Mengun af völdum slits á malbiki og bíldekkjum er líka mjög skaðleg heilsu fólks. Þar af leiðandi er ekki nóg að auðvelda fólki bara kaup á rafbílum ef fækkun bíla í umferð fer ekki samhliða.

Í núgildandi lögum er ekkert sem kemur í veg fyrir að einn og sami einstaklingurinn eða fjölskylda nýti heimildina oft þannig að einn einstaklingur eða ein fjölskylda getur fengið niðurgreiddar töluverðar fjárhæðir frá ríkinu við kaup á fleiri en einni vistvænni bifreið. Sömuleiðis er ekkert sem kemur í veg fyrir að einstaklingar eða fjölskyldur sem fyrir eiga bifreiðar sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti njóti ívilnunar til þess að bæta við fleiri farartækjum á heimilið.

Og bara af því að við erum að fara að opna einhvern krana í ríkissjóð, og höfum svo sem verið með það varðandi endurgreiðslur á virðisaukaskatti fyrir vistvæn ökutæki, þá finnst mér ekki að það eigi að vera til þess að fólk geti bætt bílum í leikfangasafnið sitt, þ.e. að það sé að kaupa sér sinn fimmta eða sjötta eða sjöunda bíl og fái styrk frá ríkissjóði til að kaupa sér eina Teslu í bílskúrinn í ofanálag. Þetta finnst mér vera sóun á fjármunum ríkisins, léleg forgangsröðun.

Auðvitað viljum við einbeita okkur að því að auðvelda fólki að fara yfir í vistvæn ökutæki, að sjálfsögðu, en þarf það í alvörunni að vera þannig að okkur sé bara alveg sama þótt viðkomandi eigi þrjá Hummera í heimreiðinni líka? Ef markmiðið er að rafvæða bílaflotann á Íslandi, sem virðist í raun vera einstefna í þessum málaflokki vegna þess að ekki er litið til metanbíla o.s.frv., þá þarf a.m.k. að hugsa það þannig að við séum ekki að veita fólki afslátt af eðlilegum gjöldum svo það geti eignast sinn þriðja, fjórða eða fimmta bíl. Þetta nær ekki nokkurri átt, virðulegi forseti. Það þarf enginn svona marga bíla og það þarf enginn að fá afslátt til að kaupa sér sjötta bílinn. En þannig virkar kerfið hjá okkur núna, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Og það er alveg til fólk sem á sex bíla, ég vil bara halda því til haga.

Í ljósi þessa og í anda þess að vinna að réttlátum umskiptum og fjölga ekki bifreiðum í umferð legg ég til breytingar með það að markmiði að ívilnunin nýtist fyrst og fremst þeim sem þurfa á henni að halda fyrir eigin samgöngur. Það þýðir að einstaklingar og fjölskyldur sem eiga engan bíl njóti fullrar endurgreiðslu virðisaukaskatts, en þau sem eiga einn bíl fyrir, óháð tegund, njóti hálfrar endurgreiðslu. Þau sem eiga fleiri en einn bíl fyrir, þ.e. tvo eða fleiri bíla, njóti engrar endurgreiðslu. Þetta finnst mér bara skynsamleg ráðstöfun á þessum skattaívilnunum og leið til að spara peninga og nota hana í eitthvað gagnlegra en þetta þegar kemur að umhverfismálunum, þegar kemur að baráttunni við loftslagsvána.

Svo fjalla ég aðeins hér í lokin um metanbifreiðar, virðulegi forseti. Heimild til niðurfellingar virðisaukaskatts, sem er að finna í ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, var fyrst bætt við lögin með 10. gr. laga nr. 69/2012, en tilgangur þess var að styrkja samkeppnishæfni umhverfisvænna bifreiða með litla eða enga losun koltvísýrings. Lengi vel nutu svonefndar tengiltvinnbifreiðar þessarar ívilnunar sem þó menga oft á köflum á við sparneytinn bensínbíl. Hámark var sett á niðurfellingu gjalda af slíkum bifreiðum, en eftir að 15.000 slíkar bifreiðar voru skráðar var hámarkinu náð og niðurfellingu gjalda tengiltvinnbifreiða hætt. Metanbílar hafa ávallt verið undanskildir þessum ívilnunum þrátt fyrir að vera mjög vistvæn ökutæki.

Í ljósi þessa, og þess að niðurgreiðsla á tengiltvinnbílum hefur verið hætt, legg ég aftur til að heimilt verði að fella niður gjöld með sama hætti og fyrir metanbíla. Metanbílar eru afar vistvæn ökutæki sem nýta þar að auki innlent eldsneyti. Metan er gas sem verður til við urðun á rusli hér á landi, en sjálft er gasið afar öflug gróðurhúsalofttegund, mun skaðlegri en koltvísýringur eða allt að 25 sinnum skaðlegri. Nauðsynlegt er því að brenna metani frekar en að sleppa því út óbeisluðu í andrúmsloftið. Að keyra metanbíl er því umhverfisvænt á tvo vegu, því að ekki aðeins sniðgengur ökumaður bifreiðarinnar jarðefnaeldsneyti, heldur brennir notkun bifreiðarinnar einnig hættulegu gasi sem verður að brenna og sparar þannig líka orku í ofanálag. Flestir metanbílar eru með tanka bæði fyrir jarðefnaeldsneyti og metan sem fellur vissulega utan skilgreiningarinnar á hreinorkubíl. Aftur á móti eru metanbílar mun umhverfisvænni en tengiltvinnbílar þar sem hægt er að keyra margfalt lengri vegalengd á metangasi en flestir tengiltvinnbílar geta að jafnaði keyrt á rafmagni. Ég kemst t.d. á mínum metanbíl, nokkurn veginn alla leið á Akureyri, vantar kannski hálftíma til 40 mínútur upp á, og þar er metanstöð. Þá er einnig vert að nefna að það er nóg af umfram metangasi á Íslandi sem verður að brenna. Það er töluvert framboð af eldsneyti fyrir metanbíla sem betra væri að nýta heldur en að sleppa út í andrúmsloftið. Nýir metanbílar eru að jafnaði töluvert ódýrara en nýir rafmagnsbílar og eru þar að auki ekki eins dýrir og mengandi í framleiðslu. Endurgreiðsla vegna metanbíla býður því upp á hagstæðari kost. Kaup á metanbílum er góð orkuskiptafjárfesting fyrir lægri tekjutíundir sem hafa ekki ráð á því að kaupa nýja rafbíla. Þessi viðbót er þar af leiðandi liður í réttlátari umskiptum í orkuskiptum. Ég legg til breytingar í þessa átt í nefndaráliti mínu.

Kannski að lokum, virðulegi forseti, vildi ég bara ítreka það sem ég sagði í upphafi: Allar þessar gestakomur, þessi urmull af umsögnum og nánast engin svör er að finna í nefndaráliti meiri hlutans. Það væri óskandi þegar jafn óyggjandi mótrök við fyrirætlunum stjórnvalda koma fram og í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar á þessu máli að meiri hlutinn leggi sig a.m.k. fram við að svara þeim með einhverjum hætti eða færa rök fyrir því hvers vegna þessi 7,7% hækkun er talin æskileg. Að færa rök fyrir því hvers vegna við viljum hrekja alla úr Fríhöfninni, að versla innlenda framleiðslu, hvers vegna í ósköpunum. Það hefði verið gott að fá svör við því í nefndaráliti meiri hlutans.