Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

menningarminjar.

429. mál
[20:35]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um menningarminjar er mjög áhugavert. Hérna er verið að breyta svokallaðri 100 ára reglu um aldursfriðun þannig að í stað orðanna „eru 100 ára og eldri“ kemur: byggð voru árið 1923 eða fyrr. Þá mun sú 100 ára regla gilda. Ég er sammála þessari breytingu að mörgu leyti en hún gerir ákveðnar kröfur til stjórnvalda og Minjastofnunar um að vernda þau hús sem þarfnast verndunar og eru byggð eftir árið 1923. Það verða vissulega miklar breytingar eftir 1920. Þá fara að byggjast upp hverfi, það er meiri fjöldi húsa og það þýðir að þá myndu heilu húsaraðirnar fara sjálfkrafa í friðun vegna 100 ára reglunnar sem kannski þurfa þess ekki. En þetta leggur ákveðnar kvaðir á Minjastofnun um að friðuð verði hús sem þess þurfa. Þau verða sem sagt að vera vakandi og vera á verðinum fyrir því að friða hús sem þess þurfa, það gerist ekki sjálfkrafa við 100 ára aldur. Ég er sammála breytingunni á 29. gr. laganna, í b-lið 1. gr. frumvarpsins:

„Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu umrædds húss eða mannvirkis.“

Þessi setning kemur þá á eftir 2. mgr. 29. gr.:

„Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.“

Minjastofnun Íslands getur gefið leyfi til að raska friðuðum mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað. Þetta hefur verið túlkað þannig að stofnunin getur gefið leyfi en það eru engin skilyrði, hún hefur ekki haft heimildir til að setja skilyrði. Þetta er mjög mikilvæg heimild, að stofnuninni sé heimilt að setja skilyrði um slíkar framkvæmdir og gera tillögu um friðlýsingu hússins eða mannvirkisins þegar verið að breyta þeim. Þetta er til samræmis við annað ákvæði í lögunum varðandi friðlýst hús og umsagnir, þá er hægt að friðlýsa með skilyrðum. Það er því mjög mikilvægt að þetta ákvæði komi inn. Það getur vel verið að það þurfi að raska friðuninni, þ.e. breyta húsi, og það verði þá gert samkvæmt skilyrðum frá Minjastofnun.

Ákvæðið sem ég geri athugasemdir við er 2. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stað ártalsins „1925“ í 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna kemur: 1930.“

Hér er verið að breyta 30. gr. laganna sem heitir: Verndun annarra húsa og mannvirkja. Í 1. mgr. hennar segir, með leyfi forseta:

„Eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, er skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa.“

Það er verið að breyta þessu þannig að eigendum mannvirkja og húsa sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1930 eða fyrr er skylt að leita álits Minjastofnunar. Það er verið að færa skylduna til að leita álits frá 1925 til 1930. Ég vil líka vekja athygli á því að stofnuninni er heimilt að setja skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu umrædds hús. Það er raunverulega það sem segir í lok 1. gr. frumvarpsins, skilyrði varðandi breytinguna eru í umsögninni, í álitinu. Þú leitar álits og þá getur stofnunin sett skilyrði. Það er verið að breyta því þannig að þetta er líka þegar verið er að raska húsi, þetta verður á báðum stöðum. Þetta er til samræmis, samræmi á milli þess þegar leitað er álits og þegar farið er í breytinguna. Þetta verður á báðum stöðum, sem er mjög gott.

Varðandi það að verið er að flytja álitsskylduna, skyldu eigenda húsa og mannvirkja sem voru byggð 1930 eða fyrr til að leita álits, verði frumvarpið að lögum, þá geri ég ákveðna athugasemd sem ég tel vert að koma hér og fjalla um í ræðu. Það segir um 2. gr. í greinargerð frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í gildandi lögum miðar friðun húsa við 100 ár og því njóta hús byggð árið 1922 eða fyrr slíkrar friðunar. Ef 100 ára reglunni er breytt og miðað verður við að hús sem byggð voru 1923 eða fyrr njóti aldursfriðunar mun eingöngu muna tveimur árum á friðuðum húsum og þeim húsum sem falla undir umsagnarskyldu Minjastofnunar Íslands skv. 30. gr. laganna.“

Ef 100 ára reglan er sú að öll hús byggð 1923 og fyrr verði friðuð þá eru bara tvö ár þarna á milli, 1923 og 1925, hvað varðar umsagnarskylduna, verði þessu ákvæði ekki breytt. Þess vegna er viðmiðið flutt til 1930 þannig að það verði sjö ár á milli. Svo segir, með leyfi forseta, í umfjölluninni um 2. gr frumvarpsins., með leyfi forseta:

„Árið 1930 varð sú þróun í byggingarlist að fúnksjónalismi tók við af nýklassík og þjóðlegri rómantík sem hafði einkennt húsagerð þriðja áratugarins. Það er því full ástæða til að færa ártalið til ársins 1930 í ákvæðinu í samræmi við aðrar breytingar í frumvarpinu.“

Hér er talað um að á árinu 1930 hafi sú þróun orðið að fúnksjónalismi hafi tekið við af nýklassík og þjóðlegri rómantík í byggingarlist á Íslandi. Það er vissulega rétt. En það eru sennilega örfá hús byggð fyrir 1930 í stíl fúnksjónalisma og ef ég fer rétt með þá held ég að það sé uppi í Garðastræti, ég held að Ólafur Thors hafi byggt það 1928 eða 1929 og húsið við hliðina. En málið er þetta: Það var ekkert farið að byggja í fúnksjónalisma fyrr en eftir 1930. Ég tel að þetta ákvæði, að breyta þessu einungis í 1930, nái ekki utan um það sem tilgangurinn með því er, þ.e. að vernda hús fúnksjónalismans, a.m.k. miðað við það sem segir athugasemdum við 2. gr., að árið 1930 hafi orðið sú þróun í byggingarlist að fúnksjónalismi tók við af nýklassík og þjóðlegri rómantík sem hafði einkennt húsagerð þriðja áratugarins og það sé því full ástæða til að færa ártalið til ársins 1930 í ákvæðinu. Það gerðist ekkert í íslenskri húsagerðarlist milli 1925 og 1930 að mér vitanlega. Það var nýklassísk og þjóðleg rómantík en fúnksjónalismi kemur raunverulega ekki til Íslands fyrr en eftir 1930. Ef það á að skylda eigendur húsa til að leita álits Minjastofnunar Íslands með minnst fimm vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsum og ef þessi álitsskylda eigenda, að leita álits Minjastofnunar, á að ná líka til húsa sem eru byggð í anda fúnksjónalisma þá verður ákvæðið að ná til 1935 eða 1940, svo það liggi fyrir. Það eru ákveðin hverfi byggð 1936, 1937, 1938, Norðurmýri t.d., þar var mikið byggt í fúnksjónalisma, og ég tel að þetta ákvæði gangi allt of skammt. Það er sérstaklega minnst á fúnksjónalisma í frumvarpinu en þessi breyting nær ekki utan um það. Það er ástæðan fyrir því að ég kem hér í ræðustól, til að benda á að þessi breyting úr 1925 í 1930, að gera eigendum húsa skylt að leita álits Minjastofnunar, nær í raun og veru ekki utan um fúnksjónalismann nema kannski örfá hús sem voru byggð fyrir 1930. Ég tel ákvæðið ganga of skammt hvað þetta varðar og hefði viljað sjá helst árið 1940 en ég hefði sætt mig við 1935.

Ég veit að þessi lög eiga að fara í heildarendurskoðun og þar er mikilvægt að taka á þessu atriði. Það bárust umsagnir og það er mjög mikilvægt að þetta komi inn í þá umræðu. Það er líka mjög mikilvægt að vernda byggingarheildir, hverfi sem eru t.d. byggð í stíl fúnksjónalisma og þá er áratugurinn milli 1930 og 1940 undir, þetta er fyrir stríð. Stríðsminjar komu til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd og ég tel alveg vert að menn fari að skoða friðun á stríðsminjum sem hafa mikið menningarsögulegt gildi og mikið sögulegt gildi, sérstaklega af því að við erum hætt með 100 ára friðunina. Það urðu breytingar, það var byrjað að byggja steinsteypt hús, mikið eftir 1915, mikið farið í steinsteypuna og svo kom bylgja eftir fyrra stríð, 1919, 1920, þá var skyndilega farið að byggja miklu meira úr steinsteypu. Ísland var að byggjast upp eftir að við fengum fullveldi, sem sýnir hversu mikilvægt fullveldið er. Það var gríðarlegur uppgangstími milli 1920 og 1930 eða frá 1918 til 1930, má segja.

Það kom umsögn frá Reykjavíkurborg eins og fjallað er um í frumvarpinu og það er rétt minnst á það í áliti meiri hlutans. Varðandi umsögnina frá Reykjavíkurborg og svo frá Minjastofnun Íslands þá tel ég mikilvægt að styrkja Minjastofnun Íslands í þessum málum og hún fái þær valdheimildir sem hún óskar. Þessi breyting er að tillögu Minjastofnunar. Ég hef unnið á Skipulagsstofnun sem á í miklu samstarfi við sveitarfélög og ég tel mjög mikilvægt að hlúa að þeirri sérfræðiþekkingu sem er hjá Minjastofnun Íslands og efla þá stofnun svo hún geti sinnt hlutverki sínu með sómasamlegum hætti. Sveitarfélögin hins vegar, sérstaklega úti á landi, veik sveitarfélög, lítil sveitarfélög, hafa ekki burði til að sinna þessu, hafa ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Og varðandi Reykjavík þá sjáum við nú bara hvað er búið að gerast í Reykjavík. Maður getur varla talað um byggðina í Reykjavík ógrátandi, hvað það er búið að rífa mikið, t.d. Fjalaköttinn. Það er reyndar búið að byggja framhliðina upp á nýtt, en það var mikill sjónarsviptir að því húsi. Gríðarlega mikilvægt hús, eitt fyrsta leikritið var sýnt þar, Einar Benediktsson ljóðskáld stóð að því. Og það voru ekki stjórnvöld sem voru upphafsmenn að því að vernda Bernhöftstorfuna, það voru listamenn í Reykjavík, leikarar og fleiri sem tóku sig til og byrjuðu bara einfaldlega að mála húsin. Við þurfum fyrst og fremst að horfa til Minjastofnunar og áhugafólks um verndun gamalla byggða og gamalla húsa.

Að þessu sögðu þá tel ég að þetta frumvarp sé til framfara. Það er ákveðinn millileikur fyrir heildarendurskoðun á lögunum sem verður vonandi farið í núna á næsta ári en ég tel að þessi breyting, 1925, varðandi umsagnir, sé breyting sem skipti raunverulega ekki miklu máli. Það er verið að breyta þessu um fimm ár hvað varðar skylduna til að leita umsagnar, 1923 til 1930 af því það er svo stutt milli 1923 og 1925, en það nær ekki til fúnksjónalismans nema örfárra húsa.