Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[22:04]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ákall frá þjónustuþegum — ég mótmæli því að það sé eitthvert ákall frá þeim sem þiggja þjónustuna um breytt fyrirkomulag. Það er mjög einfalt að taka af núverandi kerfi með því að fjölga leyfunum ef það er skortur á þeim, ef þau eru ekki nægilega mörg, svo einfalt er það. Málið er að núverandi fyrirkomulag leggur þá skyldu á leigubifreiðastöðvar að hafa þjónustu allan sólarhringinn. Með þessum farveitum er verið að eyðileggja heila starfsstétt í landinu, svo það liggi alveg fyrir. Þetta er samkvæmt skipun frá Brussel, þetta kemur ekki neins staðar annars staðar frá. Það er ekkert ákall einhvers staðar í samfélaginu um að breyta þessu. Núverandi kerfi hentar íslenskum aðstæðum mjög vel þar sem Ísland er fámennt ríki. Í Covid var þessi þjónusta vissulega í gríðarlegum erfiðleikum vegna samskiptatakmarkana o. fl. og nú er verið að demba þessu frumvarpi á þá sem er samkvæmt ákalli frá eftirlitsstofnun ESA og ekkert annað. Norðmenn eru í nákvæmlega sömu vandræðum. Af hverju? Af því að samfélögin eru mjög lík, sérstaklega fyrir utan Óslóarsvæðið. Þetta eru mjög lík samfélög, fámenn, og þá hentar núverandi kerfi mjög vel til að tryggja þjónustu allan sólarhringinn. Ef einhver er að fara að halda því fram í dag að Uber muni tryggja þjónustu allan sólarhringinn og fyrir fatlaða og fyrir Blindrafélagið og fleiri einstaklinga sem þurfa á þessari þjónustu að halda — í dag er samningur milli Hreyfils og Blindrafélagsins. Formaður Flokks fólksins, hv. þm. Inga Sæland, hefur meira að segja nýtt sér þá þjónustu. Heldur hv. þingmaður, framsögumaður þessa máls, að Uber muni gera þjónustusamning við Blindrafélagið eða fatlaða eða þá sem nauðsynlega þurfa á þessari þjónustu að halda? Nei, þeir munu ekki gera það. Þeir munu eingöngu taka af kúfinn um helgar í Reykjavík, þá munu þeir koma fram og taka þar sem mestu tekjurnar eru og svo búið. Það er það sem mun gerast. Stéttin mun hins vegar verða eftir í rúst.