Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 49. fundur,  14. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[23:29]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Ég þekki ekki neitt slíkt ef við erum að tala um heila starfsstétt sem byggir á svo sterkum grunni sem leigubílastarfsstéttin okkar byggir á. Hins vegar höfum við náttúrlega mýmörg dæmi þar sem starfsstéttir eru, eins og t.d. Allrahanda, þar sem í rauninni hafa verið væntingar um eitthvað og búið að fjárfesta í innviðum af einhverju tagi og jafnvel gera samninga um eitthvað sem síðan hafa ekki gengið eftir og eftir sitja skaðabótakröfur sem jafnvel hafa gengið eftir og hefur þurft að greiða fyrir bætur. En í þessu tilviki erum við að horfa upp á hvað hefur verið gert ef við tökum t.d. Hreyfil sem dæmi. Þar er búið að fara í tugmilljóna uppbyggingu og framkvæmdir til að koma með allt það kerfi sem er verið að byggja upp núna hjá fyrirtækinu og t.d. bara það að hringja í fyrirtækið í dag og geta ýtt á einn ef það er eitthvað sem þú ert vanur að hringja í eða hvað eina annað sem er og hafa jafnvel val um að bíða og þá er náttúrlega gefið samband við stöðina sjálfa. Ég vildi ekki einu sinni horfa upp á hvaða afleiðingar það gæti haft hvað það varðar.

Staðreyndin er sú, þó að það hafi ekki verið bein spurning frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni, að þetta frumvarp sem við erum að fjalla um hér og nú er einfaldlega að fara að leggja af þessa starfsstétt. Ef þetta frumvarp nær fram að ganga þá munum við ekki einu sinni hafa val. Þessir fáu einstaklingar sem eru að reyna að ala önn fyrir sér og sínum með þessari starfsemi sem þeir hafa gert að ævistarfi sínu munu ekki einu sinni geta haft fyrir salti í grautinn ef við ætlum að fara að dæla hér inn á markaðinn tugum ef ekki hundruðum einstaklinga til að keppa við þá. Það er ekki flóknara en það. (Forseti hringir.) Við erum að fara að leggja þessa starfsstétt niður ef þetta frumvarp nær fram að ganga.