153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög góð spurning og ég hef spurt mig að þessu lengi. Ég spurði mig t.d. að þessu varðandi umræðuna á Alþingi um orkupakka þrjú sem flokkur hv. þingmanns barðist ötullega gegn. Af hverju eru ekki færð rök fyrir málinu hér? Hver er staðan? Jú, vissulega kemur framsögumaður og flytur málið en það eru engin rök færð fyrir því hér í þingsalnum þegar við erum að mótmæla af hverju við eigum að gera það. Ég tel, og það er leiðinlegt að segja það, að stjórnarmeirihlutinn hafi einfaldlega útvistað löggjöf sem kemur hingað inn á færibandi frá Brussel. Þetta er raunverulega orðin bara stimpilstofa fyrir reglugerðir frá ESB og það sem ESA vill og rök frá ESA. Það er meira að segja ekki staðið í lappirnar og færð gagnrök fyrir því að núgildandi löggjöf eigi að vera og jafnvel farið með það til EFTA-dómstólsins sem hefur endanlegt vald á túlkun samningsins. Það er mjög sorglegt. Hér er meira að segja bara Eftirlitsstofnun EFTA sem hefur haft frumkvæðisathugun og það er ekkert gert. Það virðist bara ekki vera máttur hér í þessari stofnun til þess að standa í lappirnar gegn Brussel. Það bara virðist ekki vera. Mér finnst mjög leitt að þurfa að segja að þessi æðsta stofnun íslensks samfélags í þingræðisríkinu Íslandi, sem er Alþingi Íslendinga, æðsta stofnun samfélagsins, hún virðist algjörlega ekki hafa manndóm í sér og dug til þess einu sinni að fjalla um þetta mál með rökum og styðja það með rökum. Hver ræður gangi mála í þingræðisríki? Það er Alþingi, það er þingið. Við virðumst í þessu máli ekki ráða gangi mála í þingræðisríki. (Forseti hringir.) Það eru ESA og Brussel.