153. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[00:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Það er eitt og annað sem ég átti eftir að ræða en það vakti verulega athygli mína þegar hv. þm. Bergþór Ólason lýsti samanburði við aðrar starfsstéttir eða aðra þjónustu á háannatímum. Mér fannst þetta setja meginrökin sem eru notuð gegn leigubifreiðastjórum í ágætissamhengi. Hv. þingmaður nefndi það að hann þekkti til fólks sem hefði mætti á læknavaktina og verið nr. 300 í röðinni, er það ekki rétt? — nr. 300 í röðinni. Í fyrsta lagi er þetta auðvitað áminning um hversu illa stjórnvöld hafa haldið á skipulagi heilbrigðismála en það er önnur umræða. En um leið veltir maður vöngum yfir þessu dæmi, þessari samlíkingu, og hvernig brugðist yrði við ef viðbrögðin yrðu í líkingu við það sem hér er lagt til. Hvernig ætti að taka á því að á háannatímum þyrftu menn að bíða í 300 manna röð eftir læknisþjónustu? Ja, miðað við forskriftina hér, miðað við þetta frumvarp, þá væri það væntanlega að gefa hverjum sem hefði áhuga á að veita lækningu eða ráð tækifæri til að gera slíkt. Fólk gæti mætt hér eða þar til þeirra sem auglýstu sig á netinu eða á einhverjum öppum, snjallforritum, sem lækningafólk og með því yrði dregið úr þessari bið á háannatíma. Ég held að það sjái það flestir að þetta væri ekki æskilegt. Einhverjir kunna að segja: Bíddu nú við, þú getur ekki borið saman lækna og leigubílstjóra. Þá spyr ég á móti: Hvers vegna að gera lítið úr reynslu, menntun og færni leigubílstjóra? Þeir hafa árum saman þurft að mæta mjög miklum kröfum, kröfum sem þeir sem kæmu inn á þennan markað til lengri eða líklegar skemmri tíma hafa ekki þurft að mæta.

Hv. þm. Bergþór Ólason nefndi fleiri dæmi og það sama mætti segja um þau öll. Hvers vegna er ein stétt manna dregin þarna út og brugðist við umframeftirspurn tvisvar í viku með því að leggja til að stéttin verði lögð niður og öðrum hleypt í þau verkefni með minni kröfum en gerðar hafa verið til leigubílstjóra á undanförnum árum og áratugum? Þær kröfur hafa sífellt verið að aukast eins og rætt hefur verið hér í kvöld.

Það leiðir hugann að hugtakinu félagsleg undirboð. Þessi ríkisstjórn þykist standa gegn slíku en eins og svo margt í stefnu þessarar ríkisstjórnar þá virðast það vera umbúðir fyrst og fremst fremur en innihald, raunveruleg stefna og gjörðir. Því hvað er það annað en félagslegt undirboð þegar stétt fólks, sem hefur starfað hér á Íslandi áratugum saman, þurft að mæta miklum kröfum, í sumum tilvikum óhóflegum kröfum, þurft að mæta síauknum álögum í formi alls konar gjalda — og við sjáum í umræðum um fjárlögin núna að enn er verið að finna upp ný gjöld til að leggja á þessa stétt — hvers vegna á þessi stétt ein að gjalda fyrir umframeftirspurn með því að vera lögð niður? Við þessu fást engin svör vegna þess að það treystir enginn sér til að koma hér og verja þetta frumvarp. Framsögumaður nefndarálits meiri hluta þurfti að gera það, það var óhjákvæmilegt, en ekki einn, ekki einn annar þingmaður Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins eða Vinstri grænna, stjórnarmeirihlutans, hefur treyst sér til að koma í þessa umræðu og verja þessa leið, að leggja niður heila stétt.

Svo er hitt, afleiðingarnar af þessu, ekki bara fyrir stéttina sjálfa heldur fyrir samfélagið, afleiðingarnar af því að opna á félagsleg undirboð því að þetta myndi sannarlega gera það. Yrðu áhrifin þá ekki enn víðtækari? Væri ekki komið fordæmi? En kannski finnst þessu fólki það bara fínt sem stuðningsmenn þessa svokallaða glóbalisma, að það sé bara ágætt að hver sem er, hvaðan sem er, geti gert hvað sem er. Tekjur af leigubílaakstri myndu óhjákvæmilega í auknum mæli flytjast úr landi ef stór alþjóðleg fyrirtæki fengju að yfirtaka markaðinn hér og fleyta rjómann ofan af markaðnum með því að sinna honum mest þegar eftirspurnin væri mest. Væri slíkt hið sama ásættanlegt í öðrum starfsgreinum að mati þeirra sem verja þetta frumvarp? Væri ásættanlegt að fólk í öðrum þjónustustörfum eða iðnaðarstörfum þyrfti að búa við það að það gæti komið utanaðkomandi fyrirtæki með fólk frá jafnvel öðrum löndum eða á töxtum sem falla ekki að íslenskum vinnumarkaði og undirboðið hina og þar með í rauninni eyðilagt starfsemi þess fólks? Ég efast um að margir þingmenn myndu treysta sér til þess að rökstyðja slíkt en reyndar treysta fáir sé til að rökstyðja þetta, í rauninni enginn. Við erum hér í meginumræðunni, 2. umr. um þetta stóra mál, og við höfum ekki fengið að heyra eina einustu ræðu, ekki eina frá stuðningsmönnum málsins fyrir utan hina óhjákvæmilegu ræðu fulltrúa nefndarinnar sem flutti meirihlutaálitið. Ef það hefði ekki verið gert þá hefði málið ekki komið á dagskrá. Meira að segja sá fulltrúi stuðningsmanna þessa frumvarps skilgreindi þetta sem tilraunastarfsemi, það væri verið að prófa þetta. Í áliti meiri hlutans eru nefnd ýmis atriði og það þurfi að huga að hver reynslan af þeim verði. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna beint í álitið þar sem segir:

„Meiri hlutinn telur að við mat á reynslunni af þeim breytingum sem verða á regluumhverfi leigubifreiðaaksturs hér á landi með gildistöku frumvarpsins þurfi sérstaklega að huga að áhrifum breytinganna á eftirfarandi þætti:

Verðlag leigubifreiðaþjónustu. Framboð leigubifreiða á álagstímum. Þjónustu við hópa í viðkvæmri stöðu. Stöðu þeirra sem hafa leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu. Aðstæður á vinnumarkaði með tilliti til samþjöppunar, einokunar og annarra samkeppnissjónarmiða. Aðstæður á vinnumarkaði með tilliti til útsendra starfsmanna, sbr. lög nr. 45/2007, og hættu á félagslegum undirboðum. Önnur atriði sem kunna að koma upp og ástæða þykir til að meta.“

Ég vek athygli hæstv. forseta á þessu sérstaklega. Nefndin telur að það eigi að huga í framhaldinu, þegar búið er að setja lögin, að öðrum atriðum sem kunna að koma upp og ástæða þykir til að meta. Hér búið að telja upp lista af grundvallaratriðum sem nefndin leggur til að verði fylgst með eða metin þegar búið er að setja lögin í stað þess að gera slíkt mat áður en lögin eru sett. Þetta eru undarleg vinnubrögð, frú forseti, en því miður allt of lýsandi fyrir það sem hér stendur til; tilraunastarfsemi þar sem einni starfsstétt verður fórnað og svo ætla menn að sjá til hver áhrifin verða.