153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

aðgerðir vegna hælisleitenda .

[10:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra þekkir eflaust ágætlega forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, frá fyrri störfum hans og ráðherrann hefur líklega tekið eftir því að nú var Sunak forsætisráðherra að tilkynna um umfangsmiklar aðgerðir til að reyna að ná tökum á hælisleitendavandanum þar í landi. Þessar aðgerðir fela m.a. í sér verulega fjölgun landamæravarða, meiri eftirfylgni með gildandi reglum og svo mætti lengi telja. En það sem vakti mesta athygli var að forsætisráðherrann boðaði að strax á nýju ári myndi hann leggja fram frumvarp, það yrðu samþykkt lög sem í raun taka Bretland út úr alþjóðahælisleitendakerfinu, enda, eins og Sunak orðaði það með mjög afdráttarlausum hætti, væri það orðið úrelt. Ég hef rakið hér alloft áður hvers vegna þetta kerfi virkar ekki lengur sem skyldi við núverandi aðstæður. Þetta mun gert til þess að koma í veg fyrir að fólk komi til Bretlands til að sækja þar um hæli. Bretar ætli áfram að taka á móti kvótaflóttamönnum sem eigi rétt á hæli en þeim sem mæti ólöglega verði vísað strax úr landi til afgreiðslu í öðru landi eða til heimalandsins. Þetta er um margt svipað og danskir jafnaðarmenn hafa verið að innleiða þar í landi. En hvað ætlar ríkisstjórn Íslands gera þar sem umfang þessa vanda er hlutfallslega margfalt meira en í Danmörku og miklu meira en í Bretlandi? Hvað ætlar hún að gera? Hún nær ekki einu sinni að leggja hér fram litla útþynnta útlendingamálið. Getur hæstv. fjármálaráðherra tekið undir með kollega sínum og vini í Bretlandi og sagt að það þurfi raunverulega að breyta kerfinu?