153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

eingreiðsla til eldri borgara.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í réttindakerfi okkar hjá almannatryggingum er gengið út frá því að þeir sem hafa betri stöðu fái minna og þeir sem hafa verri stöðu fái meira og það gildir um öll réttindin. Við höfum hins vegar verið að byggja upp mjög flókið kerfi og það eru mismunandi skerðingarhlutföll eftir því hvaðan tekjustraumarnir eru og það má alveg gagnrýna það. Ég held hins vegar að breytingarnar sem við gerðum 2016 hafi verið mjög til einföldunar og við eigum eftir að ljúka þessu sama fyrir öryrkja.

Mér finnst vera skortur á því þegar hv. þingmaður tekur til máls um þennan málaflokk að hann sýni því skilning að á Íslandi erum við að byggja upp kerfi sem ganga út á það að fólk hafi náð að nýta starfsævina til að leggja til hliðar, byggja upp lífeyrisréttindi fyrir efri ár. Kerfið sem fólk á þess vegna að treysta á er skyldusparnaðarkerfið á Íslandi. Það ætti, eftir því sem tímar líða, að verða minna um það að fólk þurfi að treysta á almannatryggingar. Dæmin sem hv. þingmaður var með hér um fólk sem er á algerum strípuðum bótum almannatrygginga, það er fólk sem hefur engin réttindi neins staðar og engar tekjur. (Forseti hringir.) Þannig að við erum ekki að tala hér um hið dæmigerða almenna tilvik eldri borgara. (Forseti hringir.) Það heyrir til algerra undantekninga að fólk komi á efri ár án þess að hafa getað nýtt (Forseti hringir.) starfsævina að nokkru leyti til þess að leggja til hliðar.