Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[12:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Nú greiðum við atkvæði um fjárlagabandorminn og í honum er að finna miklar hækkanir á krónutölugjöldum sem nánast allir umsagnaraðilar voru sammála um að væri óráð. Að velta ábyrgðinni á verðbólgunni yfir á almenning og sér í lagi tekjulægri hluta landsmanna er hvorki gáfulegt né sanngjarnt. Við erum því með sameiginlegar breytingartillögur til að bregðast öðruvísi við þeirri stöðu sem uppi er og velta ábyrgðinni á fjármagnseigendur sem hafa átt metár undanfarin ár og hafa grætt á þeim efnahagsþrengingum sem við erum að stíga upp úr. Þar að auki verð ég að gagnrýna það hér í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu að allar þessar umsagnir, allir þessir umsagnaraðilar hafa ekki fengið meiri áheyrn en svo í efnahags- og viðskiptanefnd að það er ekki einu sinni talað um, það er ekki einu sinni brugðist við þeim ábendingum sem fram koma frá öllum umsagnaraðilum um þetta óráð að hækka krónutölugjöldin svona. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni fjallað um þetta. Mér þykir það miður, virðulegi forseti.