Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[14:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Birgis Þórarinssonar frá Sjálfstæðisflokknum. Ég verð að segja eins og er að mér finnst alveg með ólíkindum að flokkur sem kennir sig við sjálfstæði skuli styðja þetta frumvarp. Málið er það að EFTA eða ESA, Eftirlitsstofnun Evrópu, eftirlitsstofnun EES-samningsins, telur líkur að íslenska löggjöfin um þetta feli í sér aðgangshindranir. Rökstutt álit hefur komið fram frá ESA. Rökstutt álit er undanfari dómsmáls hjá EFTA-dómstólnum bregðist samningsríki ekki við. Það er EFTA-dómstóllinn sem túlkar samninginn, ekki ESA. Að íslensk stjórnvöld skuli ekki geta staðið í lappirnar gagnvart ESA er með hreinum ólíkindum. Við eigum að fara að fordæmi Norðmanna, t.d. í Björgvin, sem er stærri borg en Reykjavík, þar búa yfir 300.000 manns og þar eru verulegar takmarkanir, bæði hvað varðar fjölda leyfa og stöðvarskyldu. Sú fullyrðing í greinargerð að undantekningar frá algjöru frelsi í Noregi eigi við á strjálbýlum svæðum (Forseti hringir.) á líka við á höfuðborgarsvæðinu, á líka við á Íslandi eins og kom fram í máli Birgis Þórarinssonar. (Forseti hringir.) Við erum að fara inn í algjöra óvissu með þessu frumvarpi eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu.