Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór yfir þetta með ágætishætti. Fyrir 2. umr. lagði Samfylkingin fram breytingartillögu um 3 milljarða viðbótarframlag til barnabótakerfisins. Ég var kominn inn í sal og ætlaði að styðja þessa tillögu en þá var hún skyndilega dregin til baka. Flokkur minn ætlaði að styðja þessa tillögu og gerir það í bandormi. En svo var hún dregin til baka, að mér skilst eftir yfirlýsingu forsætisráðherra um að ríkisstjórnin ætlaði að veita hærra framlag en þessa 3 milljarða.

Nú hefur komið í ljós, og ég er hér með nefndarálit og breytingartillögur meiri hlutans þar sem segir að barnabætur hækki einungis um 600 milljónir á næsta ári, ekki meira en 3 milljarða. Var ekki verið að plata Samfylkinguna til að draga breytingartillöguna til baka? Ég get ekki séð neitt annað en blekkingu á bak við þetta og það er ekki eina blekkingin sem ég sé í þessum leik varðandi fjárlagafrumvarpið, svo það liggi fyrir. Það væri gott að fá að heyra álit eða fá svar hv. þingmanns við þessu: Hvers vegna drógu þau þetta til baka og af hverju að koma með sömu breytingartillöguna aftur þegar yfirlýsing forsætisráðherra lá fyrir um að þeir ætluðu að bæta um betur, um 3 milljarða kr. sem verða síðan allt í einu að 6 milljörðum? Einnig þætti mér vænt um ef hv. þingmaður gæti útskýrt fyrir mér það sem segir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar — þetta er varðandi barnabæturnar, með leyfi forseta:

„Þegar allar breytingar verða komnar til framkvæmda er áætlað að heildarútgjöld kerfisins verði um 5 ma. kr. hærri en ella miðað við óbreyttar fjárhæðir og skerðingarmörk.“

Ég sé enga umfjöllun eða breytingartillögur varðandi þessa 5 milljarða. Þetta er bara einhver yfirlýsing út í loftið. Það væri líka gott að heyra varðandi fjölgunina, að við fáum núna 2.900 fjölskyldur inn í barnabótakerfið.