Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:37]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hérna upp fyrst og síðast til að ræða svolítið þessa umræðu um breytingarnar sem er verið að gera í 3. umr., sem eru óvenjulegar þar sem 3. umr. er nú yfirleitt bara svona tæknilegur frágangur mála. Umræðan hefur hverfst svolítið um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings gerðar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði og þær ráðstafanir sem eru gerðar í framhaldi af því.

Það sem ég vil aftur á móti draga fram í andsvari mínu er að það er ákveðið að hækka barnabætur, einfalda kerfið og minnka skerðingar. Við getum líka rifjað upp málið með þeim hætti að við vorum með frátekna ákveðna fjárhæð til barnabóta í fjárlagafrumvarpi, síðan hafa laun hækkað og svo koma kjarasamningar ofan á og það er augljóst að einhverjir detta þar af leiðandi út úr kerfinu. Mér finnst ekki sérstaklega gaman að við séum að flækja umræðuna með þessum hætti, hvort peningarnir séu nýir eða gamlir eða hvaðan þeir koma. Ég ætla bara að vera ærlegur með það og taka þar af leiðandi ákveðið undir með hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur hér. En meginmálið er að án aðgerða, án þess að hafa átt þetta samtal við vinnumarkaðinn og útfært nýtingu þeirra fjármuna sem þó voru fráteknir til þessara liða, þá er verið að breyta kerfi, minnka skerðingar, einfalda það og hækka bætur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við drögum það fram þannig að við séum ekki að týna okkur í þessari tæknilegu umræðu um fjármál, hvaða peningar séu nýir og hverjir gamlir, en náum að halda utan um þessi aðalatriði sem þessar aðgerðir eru hér að boða.