Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:01]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, fór vel yfir mikið af hlutum hvað varðar líka almenning út af því hv. þingmaður kom inn á hallarekstur ríkissjóðs og að það standi til að reka þann sjóð í hallarekstri til ársins 2027. En svo er líka margt annað. Þessi fjárlagaumræða er ekki mjög aðgengileg fólki og almenningi þannig að ég held að við þurfum bara að vera duglegri að brýna fyrir fólki hvað hallarekstur og rosalega há vaxtagjöld þýða fyrir almenning og hvers konar áhrif þetta hefur á stöðu heimilanna, bara varðandi afkomuhallann og skuldasöfnun ríkissjóðs, bara hvers konar umfang, hvers eðlis það er og hvaða óvissuþættir fylgja því og síðan varðandi vaxtagjöld ríkissjóðs, bara hvernig við erum að standa okkur í samanburði við önnur lönd, af því að nú erum við með frekar óstöðugan gjaldmiðil ætla ég að leyfa mér að segja. Við erum með hærri vaxtagjöld en löndin í kringum okkur. Noregur er ekki jafn óstöðugur og við þegar kemur að vaxtagjöldum og svo t.d. bara stýrivöxtum og bankavöxtum. Þau eru samt með sjálfstæða mynt, þau eru vissulega með olíu. En maður hugsar samt: Er vandamálið bara út af því að við erum með óstöðugan gjaldmiðil? Eða er þetta bara út af því við erum svo fámenn þjóð að getum ekki rekið okkur sjálf? En bara svona til að brýna fyrir almenningi og þeim sem heima sitja og horfa á þetta af því að þetta er bara frekar óaðgengileg umræða.