Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

tóbaksvarnir.

530. mál
[20:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir ágætisyfirferð hér. Hún fór vel yfir þær athugasemdir sem hv. þingmaður og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill gera við þetta frumvarp. Ég vil draga það skýrt fram að hér er um hreina innleiðingu að ræða. Það er ekki verið að bæta neinu við tilskipunina eins og hún liggur fyrir. Og það er rétt, tilskipunin var samþykkt árið 2014. Hún tók hins vegar ekki gildi í Evrópu fyrr en árið 2016 og var ekki tekin upp í sameiginlegu EES-nefndinni fyrr en 4. febrúar 2022. Þess vegna ber okkur að innleiða þessar reglur í íslenskan rétt, það er þannig. Það er rétt að aðilum á markaði í Evrópu er veittur almennur aðlögunartími sem nú er liðinn. Þar var aukaaðlögunarfrestur gefinn ef sölumagn sígarettna með einkennandi bragði fór yfir 3% í aðildarríki. Það er því alveg hárrétt, þær athugasemdir sem komu fram eru akkúrat verkefni fyrir þinglega meðferð og nokkuð sem hv. velferðarnefnd þarf að fara yfir. Ég vil hins vegar draga það skýrt fram að það eru til rannsóknir sem staðfesta að einkennandi bragð, af því að hv. þingmaður talaði um mentól-, jarðarberja- og súkkulaðibragð, hefur áhrif og aðdráttarafl, sérstaklega fyrir yngra fólk.