Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

538. mál
[20:56]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 680, sem er 538. mál, um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og fjallar frumvarpið um aflvísi. Eins og ég kom að í framsöguræðu minni um síðasta dagskrármál er nauðsynlegt að skapa skilyrði fyrir aukinn árangur í orkuskiptum í sjávarútvegi. Sú breyting sem hér er lögð til er liður í þeirri vegferð. Með auknum kröfum um að draga úr olíunotkun fiskiskipa hefur bæði verið horft til breytinga á hönnun skipa og stærð skrúfu þeirra. Lagt er til að taka út viðmið um svokallaðan aflvísi úr lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og þannig myndast svigrúm fyrir hönnun sparneytnari skipa sem hafa aukið afl vegna stærri skrúfu en með tilteknum lengdartakmörkunum.

Frumvarpið hefur verið unnið í matvælaráðuneytinu í samráði við stofnanir, hagsmunaaðila og almenning með birtingu áforma og frumvarpsdraga í samráðsgátt stjórnvalda.

Ég mun nú víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins. Lagt er til að viðmið laganna um aflvísi verði fellt brott úr 5. og 6. gr. laganna og er það fyrst og fremst lagt til með það fyrir augum að innleiddir verði hvatar fyrir útgerðir til að endurnýja eða endurbæta skipakost sinn með umhverfisvænni skipum sem hafa stærri og hæggengari skrúfu sem er sparneytnari. Í 5. gr. laga um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eru sett takmörk á veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni nema á þeim veiðisvæðum og veiðitímum sem tilgreind eru í greininni. Heimildir fiskiskipa til slíkra veiða innan fiskveiðilandhelginnar miðast við stærð skipa og aflvísi þeirra en skipum er skipt í þrjá flokka í tengslum við fyrrgreind viðmið. Þetta hefur þau áhrif að hærri aflvísir sem kemur til að mynda til vegna stærri og hæggengari skrúfu sem er mun sparneytnari veldur því að heimildir til veiða eru takmarkaðar. Því er lagt til hvað varðar umræddar veiðar að aflvísisviðmið laganna verði tekið út og eingöngu gildi stærðartakmarkanir skipa. Er þetta enn fremur skynsamlegt til þess að stytta siglingatíma skipa við veiðar og þar af leiðandi notkun þeirra á olíu. Einnig getur þessi breyting gert ákveðnum skipum kleift að veiða með tveimur trollum en þannig er til að mynda hægt að tvöfalda veiðiafköst með um einungis 30% meiri olíunotkun. Þá hafa komið fram sjónarmið um aukin gæði aflans þegar veitt er með tveimur trollum þar sem rýmra er um aflann í trollinu og minna getur verið um mar á fiskinum. Enn fremur hafa aukin veiðiafköst þau áhrif að færri ferðir eru farnar með tilheyrandi samdrætti í olíunotkun og minni heildaráhrifum á hafsbotninn.

Áður en aflvísir var tekinn upp sem viðmið fyrir heimildum til umræddra veiða var miðað við lengd skipa og þar áður við rúmmál skipa eða brúttórúmlestir. Ástæður þess að aflvísir var gerður að viðmiði fyrir því að umrædd skip fengju að veiða nær landi var sú að eðlilegt þótti að smærri og afkastaminni skip veiddu nær landi en ekki þau stærri og afkastameiri. Í þessu samhengi er vert að árétta að fiskiskipum hefur fækkað verulega síðan lögin voru sett. Með fyrirhugaðri breytingu á lögunum er lagt til að stærðartakmörk haldist en að afnumin séu takmörk varðandi skrúfustærð og vélarafl. Í ljósi markmiða um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru hér lagðar til breytingar á löggjöfinni með umhverfis- og loftslagssjónarmið að leiðarljósi. Þá hafa ekki komið fram fiskifræðileg rök sem mæla gegn því að aflmeiri skip innan lengdartakmarka fái heimild til veiða á umræddum svæðum.

Hér hefur í umræðunni í dag verið komið inn á áhyggjur af vistkerfi á grunnslóð og ég vil aðeins koma inn á það atriði. Nú um stundir er í gangi vinna í matvælaráðuneytinu um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotni sem byggir á rannsóknum og skýrslu Hafrannsóknastofnunar og eru þau svæði öll utan 12 mílnanna. Í framhaldinu verður síðan, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, farið í sambærilega vinnu um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotni á grunnslóðinni, þ.e. innan 12 sjómílna. Slík stýritæki geta verið mun nákvæmari en bann sem er byggt á stærð báta eða tilteknum fjarlægðarmörkum frá landi sem endurspegla mögulega ekki það sem á botninum er. Ég vil ítreka hér að það er mikilvægt að aðgerðir séu bæði markvissar og byggi á vísindalegri ráðgjöf okkar stofnana og færustu sérfræðinga.

Frú forseti. Frumvarpið var ekki talið gefa tilefni til skoðunar á samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar og talið er að ákvæði frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Það er ekki talið að frumvarpið hafi heldur áhrif á stöðu kynjanna.

Frú forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlegar fjallað um efni þess.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.