Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 50. fundur,  15. des. 2022.

stjórn fiskveiða.

539. mál
[21:13]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og líka fyrir umræðuna um þessi mál hér í dag. Ég held að við getum öll verið sammála um að loftslagsmálin, sem eru eitt stærsta viðfangsefni 21. aldarinnar, og ég vil reyndar meina að séu stærsta velferðarmál 21. aldarinnar, eru eitthvað sem er risastórt verkefni samfélagsins og ekki síst okkar sem hér stöndum í pólitík. Hvers konar samfélag viljum við byggja? Til hvaða aðgerða viljum við grípa til að búa til þá farvegi sem við þurfum á að halda til þess að geta náð árangri? Þau þrjú frumvörp sem ég hef hér mælt fyrir í dag eru öll ætluð í þá átt að ná árangri þegar kemur að orkuskiptum í sjávarútvegi. Þau eru kannski hvert og eitt ekki risastór mál eins og við sjáum á þeim, enda er hvergi vikið að því að svo sé, en eru hluti af því að búa til frekari tækifæri til að geta látið orkuskipti ganga smurðar fyrir sig en er í dag.

Hér spyr hv. þingmaður hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af kostnaði samfélagsins við ívilnanir. Það er auðvitað eitthvað sem er hluti af þeim greiningum sem þurfa að eiga sér stað þegar um er að ræða aðgerðir í loftslagsmálum og á undanförnum árum hafa verið stigin stærri skref en áður hafa verið stigin akkúrat í því. Meðal annars í ráðherratíð minni sem umhverfisráðherra byrjuðum við akkúrat á þessari vinnu.

Ég vil kannski svara þessu almennt. Það þarf að greina þróunina í þessu, það þarf að fylgjast vel með þessu þannig (Forseti hringir.) að við getum alltaf fundið þær lausnir sem við teljum og sem greiningar sýna okkur að séu afkastamiklar í að ná samdrætti í losun á sama tíma og þær eru ekki of kostnaðarsamar.