Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Lög um opinber fjárlög, fjármál, í þágu ábyrgra fjármála voru sett árið 2015. Við það tækifæri sagði Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, að þetta snerist um vandaðan undirbúning fjárlaga til að trygga fjárlagafrelsið og tryggja yfirsýn, draga úr frávikum og styrkja gegnsæið. Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi varaformaður fjárlaganefndar, sagði að það væri ekki nóg að lögfesta málið, vinnubrögð þyrftu að fylgja því sem þarna stæði. Lögin tóku svo gildi í byrjun árs 2016 en það ár og næsta ár voru kosningar. Svo kom Covid með sinni óvissu og óreiðu, ekki síst í fjármálum ríkisins, þannig að núna er í rauninni í fyrsta sinn verið að reyna á lögin um opinber fjármál af alvöru. Og hvað gerist? Á lokasentímetrum afgreiðslu fjárlaga laumaði meiri hluti fjárlaganefndar, laumuðu þingmenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í gegn 100 millj. kr. styrk til einkarekinna fjölmiðla á landsbyggðinni, fjölmiðla sem framleiða eigið efni fyrir sjónvarpsstöð. Meiri hlutinn kippti þannig sisvona úr sambandi fyrirkomulagi um styrk til einkarekinna fjölmiðla. Síðar kom í ljós við eftirgrennslan forviða fjölmiðla að þessi viðbót var ætluð einni tiltekinni sjónvarpsstöð og enn síðar kom í ljós að þessi tiltekna sjónvarpsstöð hafði sent inn beiðni um peninga til fjárlaganefndar, beiðni sem bara meiri hlutinn sá eftir að hafa fengið vísbendingar um það frá þingflokksformanni Framsóknar að slíkt gæti skilað sér — gæti skilað sér.

Herra forseti. Hér þekkjum við aldeilis okkar fólk en fögur fyrirheit forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar, sem enn sitja sem slíkir, um ný og betri vinnubrögð eldast ekki vel. Í þokkabót sitja nú fjölmiðlar landsins eftir með enn óreiðukenndari mynd af framtíðinni og rekstrarhorfum sínum en áður og var þó nóg fyrir. Með tilliti til ábyrgra fjármála er þessi framkoma meiri hluta fjárlaganefndar ekkert annað en skandall, herra forseti.