Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

Störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Merkilegir hlutir hafa gerst í tækninni á árinu og þar á meðal í gervigreind. Ég spurði gervigreind hvað gerist ef ráðherra selur pabba sínum ríkiseign og gervigreindin svaraði, með leyfi forseta:

„Ef ráðherra selur pabba sínum ríkiseign myndi þetta vera mjög alvarlegt brot á góðu stjórnarskipulagi og hefðbundnum hagsmunaskilningi. Þetta gæti verið metið sem árekstur á hagsmunum þar sem ráðherranum væri gefið undirbúningsstyrkur og áhrif í aðgerðum stjórnvalda sem færu hagsmuni hans á undan hagsmunum almennings. Þetta myndi líklega valda óþolandi ágreiningi og ótta í samfélaginu og væri mjög óþarfi og óhagstætt. Í slíku tilfelli þyrfti líklega beita neyðarháttum til að hindra slíkt frá að gerast og til að leysa áreksturinn.“

Meira að segja gervigreind veit hvað hagsmunaárekstur er mikið vandamál. Með leyfi forseta, þá segir í 9. gr. siðareglna þingmanna:

„Þingmenn skulu við störf sín forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar. Takist þingmanni ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“

Núna erum við með N4-málið hérna fyrir þinginu og þar var afgreiddur hagsmunaárekstur á lokuðum meirihlutafundi. Á lokuðum meirihlutafundi greindi nefndarmaður í fjárlaganefnd frá því að hann hefði hagsmunaárekstur við eina af beiðnunum sem þar voru afgreiddar. Á nefndarfundi fjárlaganefndar var ekki greint frá þeim hagsmunaárekstri og ekki á þingfundi. Nei, við eigum bara að þurfa að treysta því að það hafi verið rétt greint frá og nægilega mikið greint frá því á fundi meiri hluta, eins og það dugi.