Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

Störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að þakka öllu því fólki hringinn í kringum landið sem notar prjóna og ull til að rétta Úkraínumönnum hjálparhönd með verkefninu Sendum hlýju frá Íslandi. Fyrr í vikunni var greint frá því að héðan hefðu farið níu tonn af ullarsokkum, peysum og öðrum fatnaði til að stuðla að því að Úkraínumenn haldi á sér hita á ólýsanlegum erfiðleikatímum. Þeir verjast innrásarher sem velur sér óbreytta borgara sem skotmörk og sprengir í loft upp mannvirki til framleiðslu og dreifingar orku til að sem allra flestir íbúar verði án rafmagns og hita í húsum sínum þegar vetur er genginn í garð með tilheyrandi frosthörkum. Hér á landi er nú kaldara en við eigum að venjast en við getum sótt í hlýju innan dyra og höfum yfir engu að kvarta. Frostið leiðir hins vegar hugann að þeim sem þurfa að þola nístingskulda úti sem inni með sprengjudrunur, eyðileggingu og dauða allt um kring. Heiðrún Hauksdóttir stjórnaði verkefninu Sendum hlýju sem óx og dafnaði undraskjótt. Héðan fara ekki vopn heldur fatnaður og hlýjar hugsanir með ósk um að íbúar stríðshrjáðs lands haldi baráttuþreki og von um betri tíð. Heiður sé þeim er höfðu frumkvæði að verkefninu og heiður sé öllum þeim sem lagt hafa því lið á einn eða annan hátt. Jólin eru hátíð ljóss og friðar en einræðisöflin í Rússlandi með Pútín í fararbroddi eru boðberar myrkurs og ragmennsku. Ég óska þess innilega að ylur frá Íslandi færi Úkraínumönnum von og styrk og að á nýju ári megni þeir að hrinda innrásarliðinu af höndum sér.