Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:36]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum núna loksins komin á endastöð með fjárlagafrumvarpið sem hæstv. ríkisstjórn skilaði hingað ókláruðu til þingsins í haust. Endalaus straumur breytingartillaga hefur gert vinnu minni hlutans erfiða og haldið í rauninni aftur aðhaldsgetu hans og utanaðkomandi umsagnaraðila í þessu ferli, leyfi ég mér að segja. Sífellt hefur verið vitnað í fjárheimildir sem eru á leiðinni og ljóst að sumar hverjar bárust í raun alls ekki. Við í Samfylkingunni fögnum því þó að nú komi inn tillögur í 3. umr. um að styrkja vaxtabóta- og húsnæðisbótakerfið þó að það væri að sjálfsögðu óskandi að hér væri rekin velferðarstefna sem krefðist ekki sífellds viðbragðs við sjálfskapaðri neyð. Það þyrfti ekki kjarapakka til, virðulegur forseti, og ólga væri ekki á vinnumarkaði ef hér væri félagslegt akkeri á húsnæðismarkaði, ef heilbrigðiskerfið væri ekki orðið tvöfalt og ef ábyrgðinni á þensluaðhaldinu væri ekki skellt á almenning í landinu. Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar.