Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:56]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra sá sig knúinn til að koma hér upp öðru sinni og tala um breytingartillögur á vegum þingsins þá vil ég leggja áherslu á að þessar breytingartillögur koma ekkert frá meiri hlutanum. Nefndin beið í raun í allan vetur eftir stórtækum breytingartillögum frá hæstv. ríkisstjórn sem skilaði sínu eigin fjárlagafrumvarpi ókláruðu inn í þingið og þetta er nákvæmlega gagnrýnin sem er verið að koma á framfæri, að það er orðið algjört ríkisstjórnarræði hérna. Þetta er ekkert breyting á vegum nefndarinnar. Það er algjörlega búið að klippa á það þinglega aðhald að hér fengum við inn umsagnir í byrjun vetrar sem byggðu á allt öðru frumvarpi og síðan koma inn breytingar sem enginn tími er til að biðja um umsagnir um, nú síðast í þessari viku, stórtækar breytingar. En hæstv. ríkisstjórn nýtir þá dyggilega tímann til að tromma þessar tillögur upp á blaðamannafundum eins og eitthvað sé nýfundið í því að klára eigin fjárlög, þannig að rétt skal vera rétt í þessu máli.