Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson hér áðan, að auðvitað er fráleitt að geta ekki rætt mál sem þetta í þaula í þingsal. Þessi breyting dregur auðvitað að hluta til fram fáránleika og flækjustig þeirra kerfa sem byggð hafa verið upp í kringum loftslagsmálin, þetta er orðinn bransi út af fyrir sig. Ég held að við eigum allra hluta vegna að leita leiða til að fara hagkvæmustu leiðir gagnvart þeim á köflum furðulegu skuldbindingum sem við höfum undirgengist í ljósi þess að við erum raunverulega best í heimi. Það er algerlega fráleitt að við ætlum að undirgangast hér einhvern fjáraustur til einhverra kerfa sem ekki nokkurt okkar skilur raunverulega á grundvelli þess að það sé búið að samþykkja einhvers staðar úti í löndum. Ég hef orðið vitni að því hvernig pulsugerð loftslagsmálanna gengur fyrir sig. Það er ekki allt skynsamlegt eða úthugsað sem þar á sér stað.