Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hvort grænþvottaefni sé svo sterkt að það valdi einhverjum sjálfsblekkingarhrifum í hugum stjórnarliða vegna þess að hæstv. umhverfisráðherra virðist í alvöru trúa því að ríkisstjórnin hafi sett sér háleit markmið og ætli að standa við einhver stór orð. Í gær birti loftslagsráð álit þar sem stendur að íslensk stjórnvöld verði að taka sig á ætli þau að ná settum loftslagsmarkmiðum og þau markmið segir ráðið líka enn einu sinni of óljós og ómarkviss. Og nú, til að bæta gráu ofan á svart, ætlar ríkisstjórnin, sem ári eftir síðustu kosningar er ekki búin að uppfæra metnaðarlausu aðgerðaráætlunina sína, að fá að millifæra einhverjar loftslagsheimildir inn á áætlunina til að þurfi að gera minna. Stór orð eru það eina sem hæstv. umhverfisráðherra hefur fram að færa í loftslagsmálum, er ég hræddur um. Það sýnir loftslagsráð, þetta er ekki bara stjórnarandstöðuþingmaðurinn að tala. Það sýna öll (Forseti hringir.) sérfræðiálit loftslagsráðs að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er með hangandi hendi í loftslagsmálum og hún gerði illt verra með því að samþykkja eiturpillu inn í aðgerðaráætlun hér rétt áðan í atkvæðagreiðslu. Grænþvotturinn, (Forseti hringir.) við erum farin að sjá í gegnum hann.