Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

leigubifreiðaakstur.

167. mál
[15:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við skulum hafa það á hreinu að það er ekki verið að samþykkja þessi lög út af frelsisþrá heldur þveröfugt. Það er verið að samþykkja þessi lög út af rökstuddu áliti frá Eftirlitsstofnun EFTA, frá ESA. Þetta er út af rökstuddu áliti. Íslensk stjórnvöld þora ekki og hafa ekki kjark í sér til að rökstyðja mál sitt, rökstyðja núverandi löggjöf og styðja starfsstéttir í landinu. Það er ástæðan. Þau þora ekki einu sinni að fara með þetta fyrir EFTA-dóminn. Að halda því fram að þetta sé einhver frelsisþrá er bara ekki rétt. Varðandi Noreg þá er Noregur þrisvar sinnum stærra land en Ísland og ekki eru einsleitar reglur í öllu landinu. Það eru aðrar reglur í Ósló en í Björgvin. Það er sérstök reglugerð í Björgvin sem við hefðum getað litið til og Noregur er raunverulega fyrirmynd varðandi strjálbýli á Íslandi. Íslenskt samfélag er strjálbýlt land og ekki jafnstórt og Óslóarsvæðið. Þar búa milljón manns, við erum 370.000 manns. (Forseti hringir.) Það er verið að gera þetta út af hræðslu við Brussel og engu öðru. (Forseti hringir.) Það er verið að slátra einni stétt, heilli starfsstétt út af engu. Ég segi nei.