Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er eins og oft vill verða verið að fara flókna leið að þeim markmiðum sem eru jákvæð í þessu frumvarpi. Það virðist vera sérstakt markmið í sjálfu sér að þenja út báknið og menn virðast hafa reynt að sannfæra sjálfa sig um að ekkert af þessu myndi kosta neitt. Það eru sjónarmið sem snúa að einkaréttarlegum samningum sem þarna á að hefja mikla skráningu á. En það sem ég held að skipti mestu máli er sá tónn sem sleginn er í þessu frumvarpi þar sem leigusalinn er settur í eitthvert hlutverk ómennis, ef svo má segja, þegar staðreyndin er sú að milli 50 og 60% leigusamninga á markaði eru gerðir á milli einstaklinga. Stóru leigufélögin, sem kannski mest hefur verið rætt um í fjölmiðlum undanfarnar vikur, eru ekki nema rúmlega 15% af markaðnum. Ég held að við séum að fara mjög íþyngjandi leið og það væri hægt að ná fram þeim markmiðum sem eru góð í frumvarpinu með miklu minna íþyngjandi hætti. (Forseti hringir.) Ég minni á það að á hverju ári er um 10.000 leigusamningum þinglýst á Íslandi. (Forseti hringir.) Þessi gögn sem snúa að því að ná fram einhverju góðu, gegnsæju mati á kostnaðarþróun liggja öll fyrir. Við þurfum þetta ekki. Ég mun sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.