Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 51. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[15:45]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég get aðeins sagt að ég er virkilega döpur yfir þessu frumvarpi. Ég get ekkert annað sagt. Það er í engu verið að reyna að koma í veg fyrir það brjálæði og þá græðgisvæðingu sem er hér úti um allt á leigumarkaðnum, í engu verið að hlusta á þær þúsundir og aftur þúsundir einstaklinga sem geta ekki lengur staðið undir þessari brjálæðislegu okurleigu sem er verið að leggja á þá. Samt sem áður erum við að fá það í beinni útsendingu hér dag eftir dag og ég persónulega að fá fullt af sögum frá fólki sem er hágrátandi og getur ekki greitt húsaleiguna sína. Ég skil það ekki, ég hélt kannski að það yrði einhver meiri vilji til þess að taka utan um markaðinn og koma einhverju skikki á hann þannig að þetta væri ekki bara í eina áttina en það er eins og venjulega, það er alltaf sá stóri sem byggt er undir og tryggt á kostnað þess sem er í rauninni minni máttar í samningssambandinu og í þessu tilviki er það leigjandinn. Ég segi því: Það verður að koma einhver bragur á þetta, eins og t.d. tillaga Flokks fólksins um að koma með 4% þak næsta árið á þessa leiguhækkun sem eru efri vikmörk Seðlabankans í verðbólguviðmiðum.