153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

fríverslunarsamningur við Breta.

[15:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að mér finnst hv. þingmaður teikna upp fulleinfalda mynd af því, eins og það séu eingöngu við hér sem berjumst fyrir frekari tollum og viljum ekki að matvæli séu á besta mögulega verði á Íslandi, þegar um er að ræða samskipti við ríki sem sömuleiðis er með tolla. Það sama á auðvitað við um Evrópusambandið sem er með mikla tolla á matvörur okkar inn til þeirra. Þess vegna er það samningsatriði milli ríkja hvernig þessum málum er almennt háttað.

Kvótar fyrir landbúnaðarafurðir eru þeir sömu og er að finna í bráðabirgðasamningi við Bretland sem tók gildi í lok árs 2020. Það er alveg þannig að Bretland er okkar helsta viðskiptaland þegar kemur að sölu á landbúnaðarvörum, lambakjöti, og þess vegna er mikilvægt að vernda þann markaðsaðgang. Eins og ég segi var markmiðið í upphafi viðræðna að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir en alltaf er það samningsatriði, í þessu tilfelli eins og öllum öðrum, og (Forseti hringir.) fulla tollfrelsið var einfaldlega of dýrt fyrir einmitt heildarhagsmuni samfélagsins.