Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:56]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að ítreka við virðulegan forseta beiðni okkar Pírata frá 1. umr. um þetta mál um viðveru hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, að hann sé viðstaddur þessar umræður. Við báðum um það við 1. umr. Við báðum aftur um það þegar málið fór í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd og nú er sérstaklega mikil ástæða til þess að hæstv. ráðherra verði viðstaddur þessa umræðu þar sem ráðuneyti hans tróð sér inn í ferli málsins hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Þar með getur hæstv. ráðherra ekki með nokkru móti komið sér undan því að mæta í þingsal og segja okkur þingheimi frá því sem hann og hans ráðuneyti bað allsherjar- og menntamálanefnd um að breyta í þessu frumvarpi og eins segja hvort hann sé sáttur við þá útfærslu sem hér liggur fyrir.