Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann og formann hv. allsherjar- og menntamálanefndar út í þær grundvallarbreytingar sem meiri hluti nefndarinnar er að gera á aðkomu lögreglu að þessum málum er varðar niðurfellingu þjónustu við fólk í leit að vernd. Lögregla hefur til þessa dags verið framkvæmdaraðili á ákvörðunum annars stjórnvalds, þ.e. Útlendingastofnunar eða kærunefndar, en mun núna verða ákvörðunaraðili um hvort eigi veita undanþágu frá niðurfellingu þjónustu við fólk sem ekki er búið að brottvísa eða hefur ekki yfirgefið landið. Hvað kostar þetta? Hvað telur meiri hlutinn að muni margir starfa hjá ríkislögreglustjóra við að framkvæma þetta, eða verður þetta hjá einstaka lögregluembættum um landið? Mun kærunefnd útlendingamála fá auknar fjárheimildir til að annast kærur vegna ákvarðanatöku, stjórnvaldsákvarðanatöku lögreglu, eða mun jafnvel vera farin sú leið sem fulltrúar kærunefndar útlendingamála lögðu til á fundi allsherjar- og menntamálanefndar, að kæruleiðin yrði til kærunefndar velferðarmála? Og hvað telur meiri hlutinn að slíkt muni kosta? Hvað verður margt starfsfólk ráðið til þess að fara yfir þau gögn sem liggja fyrir um aðstæður einstaklinga? Þess ber að geta að í dag fara engin slík gögn til lögreglu og maður veltir fyrir sér hvernig lögreglan á að fara að því að meta aðstæður einstaklinga, hvort það sé búið að tryggja verkferla á milli stofnana og lögreglu sem nú er að fara í að taka stjórnvaldsákvarðanir af þessu tagi sem yrðu þá kæranlegar.