Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og held að það kristallist svolítið það verkefni sem við stöndum frammi fyrir þegar hv. þingmaður Pírata var hér áðan í andsvörum og nú hv. þingmaður Flokks fólksins, og ég tala nú ekki um fyrirspurn frá fulltrúum Miðflokksins hér fyrr í dag; það kristallast að það eru pólar í útlendingamálum. Það frumvarp sem hér um ræðir er málamiðlun stjórnarflokkanna sem fara með völd. Það er lausnin sem við erum með á borðinu og það sýnir svo bersýnilega að við erum að ná vel utan um ákveðin sjónarmið og náum kannski að afmá þessa póla svolítið í því sem hér um ræðir.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega út í Venesúela og fer yfir fjölda umsókna sem borist hafa. Við þekkjum öll þá umræðu að á sínum tíma ákvað Útlendingastofnun að umsóknir frá Venesúela skyldu afgreiddar á ákveðinn veg. Þegar fór svo að bera á því að verið væri að draga það eitthvað til baka þá úrskurðaði kærunefndin á þann hátt að ástandið í Venesúela hefði svo sannarlega ekki breyst. Kannski er í þessu máli ekki verið að taka neitt skýrt á því, enda væri það náttúrlega helst ef ástandið í Venesúela myndi batna sem myndi taka hvað mest á þeim þætti.

Engu að síður, hv. þingmaður, þá er hér um ofboðslega mikilvægar breytingar að ræða sem taka m.a. á þessum endurteknu umsóknum. Út af því að hv. þingmaður vísar sérstaklega í Venesúela er líka tekið hér á því sem varðar fyrsta griðland. Þar hefur ákveðin umræða skapast, að fólk sem er frá Venesúela hafi mögulega búið í Bandaríkjunum eða einhvers staðar annars staðar áður en það kom og leitaði verndar á Íslandi. Þá má að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvort það fólk sé í raunverulegri leit að vernd eða ætti frekar að nýta sér það dvalarleyfi eða þau réttindi sem fólk hefur fengið í öðrum löndum. Það er m.a. tekið á því.

Hvað 8. gr. varðar og þennan 12 mánaða frest þá eru, myndi ég segja, það mikil réttindi til þeirra sem hingað sækja, ákveðin pressa á stjórnvöld að afgreiða umsóknir hratt og vel. Til þess að geta gert það þurfum við að ná fram þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. (Forseti hringir.) Það mun auðvelda stjórnsýslunni að takast á við þann mikla fjölda sem við sjáum í umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi.