Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar en undir nefndarálitið ritar sú sem hér stendur og er fulltrúi Viðreisnar, hv. þm. Sigmar Guðmundsson, samþykkur álitinu. Svo því sé fyrst haldið til haga leggst fyrsti minni hluti alfarið gegn því að frumvarp þetta verði samþykkt. Við tökum undir það að ákveðnir annmarkar séu á núgildandi lögum um útlendinga sem nauðsynlegt sé að bregðast við en bendum á að úr þeim annmörkum er ekki verið að leysa með fyrirliggjandi frumvarpi. Leggjum við heldur til að farin verði sú leið sátta sem farin var á kjörtímabilinu 2013–2016, þess efnis að sett verði á laggirnar þverpólitísk þingmannanefnd um málefni útlendinga sem fól í sér heildarendurskoðun á útlendingalögunum. Þingmannanefndin hafði það að leiðarljósi að bæta íslenska löggjöf um útlendinga í samráði við helstu sérfræðinga á sviðinu, háskólasamfélagið, sjálfa notendur kerfisins og fleiri. Var það almenn skoðun hversu mikilvægt það væri fyrir málaflokkinn að breytingar væru unnar í þverpólitískri sátt með ríku samráði við helstu hagaðila, þá sem þekkja best til í málefnum barna, málefnum fatlaðra o.s.frv. Er það okkar skoðun að það verklag sé enn mjög mikilvægt og að fengnir verði að borðinu helstu hagaðilar sem taldir eru upp í nefndarálitinu.

Í því samhengi er vert að minnast á áskorun hagaðila frá því í maí á síðasta ári þar sem ríkisstjórnin var hvött til að stíga skref til baka, dýpka samtalið og samráðið og ná þannig faglegri sátt líkt og áður hafði tekist, enda er það mjög áríðandi þegar um svo mikilvægar lagabreytingar er að eiga, eins og við sjáum í þessu frumvarpi, að það sé þetta djúpa samtal milli þeirra sem best þekkja til og hafa starfað við málaflokkinn, hafa til þess sérþekkingu og ekki síður reynslu í að fást við einstaklinga í leit að vernd. Sú sérþekking fæst ekki við skrifborð í ráðuneytum, með fullri virðingu fyrir þeim sem þar starfa. Sú sérþekking fæst við að mæta fólkinu þar sem það er.

Fyrsti minni hluti telur nauðsynlegt að bregðast við þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna aukins fjölda fólks á flótta í heiminum en allt bendir til þess að sá fjöldi muni aukast á komandi árum. Ísland þarf að búa sig betur undir móttöku fólks á flótta enda er landið þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og fylgja því bæði réttindi og skyldur. Það þarf að móta hér innflytjendastefnu og löggjöf sem tekur mið af stöðu mála í heiminum öllum og þörfum íslensks samfélags til framtíðar. Mikilvægt er að sú vinna byggist á einhverri framtíðarsýn, ekki bara einhverri haftastefnu nútímans, bestu fáanlegu þekkingu og reynslu þeirra sem hafa unnið við málaflokkinn.

Frú forseti. Við getum öll verið sammála um að það þurfi að auka við skilvirkni við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd en jafnframt þarf að tryggja umsækjendum rétt til að starfa hér á landi á meðan umsókn þeirra er til meðferðar, lifa hér og starfa. Ganga þarf úr skugga um að réttindalaust fólk festist ekki í lagalegu tómarúmi hér á landi eins og nú er raunin. Nauðsynlegt er að til verði raunhæfar leiðir fyrir ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins til að sækja hér um atvinnu og setjast hér að. Því erum við einnig sammála um að hér þarf fleiri vinnandi hendur til að halda uppi okkar grunninnviðum og þjónustu. Allt þetta er hægt að gera, frú forseti, með betri yfirsýn yfir málaflokkinn þannig að heildarmarkmið náist um að auka skilvirkni og draga úr kostnaði ríkissjóðs samhliða því að tryggja ýtrustu mannréttindi þeirra sem hingað leita. Það ætti því að vera forgangsatriði hjá stjórnvöldum að fá hingað til lands fjölbreyttan hóp fólks til að standa undir grunnþjónustu við hlið okkar sem hér erum fædd. En nei, engar slíkar hugmyndir koma fram hjá stjórnarflokkunum.

Frumvarp það sem hér er til umfjöllunar inniheldur fjölmörg ákvæði sem skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og veita þeim lakari rétt en þann lágmarksrétt sem tryggður er í stjórnsýslulögum. Þá er réttur flóttafólks til fjölskyldusameiningar í ákveðnum tilfellum felldur algerlega niður en hann er einnig grundvallarréttur og jafnframt forsenda fyrir árangursríkri inngildingu.

Allar umsagnir sem bárust hv. allsherjar- og menntamálanefnd fela í sér harða gagnrýni á frumvarpið og þær breytingar sem lagðar eru til. Meiri hluti nefndarinnar, í öllum stjórnarflokkunum þremur, hefur ekki gert neinn reka við að mæta þessum umsögnum, ekki neitt, þvert á móti. Þvert á móti hafa þau dýpkað ágreininginn í málinu. Margir umsagnaraðilar fjalla um nauðsynlegar breytingar sem gera þarf á lögum um útlendinga, t.d. að veita einstaklingum sem ekki hefur tekist að flytja úr landi, eftir margra ára dvöl, tækifæri til að fá sitt mál tekið upp í stað þess að þau festist réttindalaus í lagalegu tómarúmi. 1. minni hluti telur mörg þeirra ákvæða sem lögð eru til í frumvarpinu beinlínis til þess fallin að minnka skilvirkni og auka kostnað kerfisins. Má þar nefna þau mistök sem nú liggja fyrir, að ætla sér að fella niður alla þjónustu við umsækjendur um vernd 30 dögum eftir svokallaða endanlega synjun á stjórnsýslustigi — en þetta mun klárlega ekki spara fjármuni heldur auka skriffinnsku með tilheyrandi stjórnvaldsákvörðunum um niðurfellingu þjónustu eða undanþágu frá niðurfellingu þjónustu — og kæruheimildir og kæruleiðir sem enginn veit hvernig á að framkvæma. Það kom bersýnilega í ljós í andsvörum við hv. formann allsherjar- og menntamálanefndar að það er ekki búið að úthugsa þetta af því að þau líta svo á að þetta muni ekki kosta neitt. Við niðurfellingu þjónustu og synjun á undanþágu frá því er um að ræða stjórnvaldsákvörðun sem lögregla á skyndilega að taka á grundvelli gagna sem liggja ekki fyrir hjá lögreglu. Þetta mun kalla á mannafla. Þetta mun kalla á mannafla hjá kærunefnd og enginn veit hjá hvaða kærunefnd. Þess vegna þurfum við að fá hérna hæstv. félagsmálaráðherra í salinn til að skera úr um það hver ætlar eiginlega að fást við t.d. þetta af því að þjónustan er skyndilega hjá honum en ekki hjá dómsmálaráðherra eins og var.

Frú forseti. Þetta er allt í einhverju rugli hérna. Mér þykir leiðinlegt að segja það. Með uppstokkun Stjórnarráðsins veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri er að gera og þetta bitnar bara fólki í mestri neyð. Það er þannig. Það er í boði stjórnarflokkanna þriggja, þar á meðal Vinstri grænna, sem geta ekki skýlt sér á bak við þetta. Þau eru þarna að styðja við ýtrustu útlendingaandúð Sjálfstæðisflokksins. Það er dapurlegt að ríkisstjórnarflokkarnir allir, Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sjái ekki þau tækifæri sem felast í því að hafa hér þverpólitíska og þverfaglega vinnu við endurskoðun útlendingalaganna og stefnumótun í þessum málaflokki heldur styðja að öllu leyti útlendingastefnu Sjálfstæðisflokksins í verki með því að afgreiða þetta mál með þessum hætti út úr nefndinni og greiða því svo atkvæði hér að lokinni 2. og 3. umr.

Viðhorf ríkisstjórnarinnar í málefnum útlendinga að bera vott um skammsýni og afneitun er varðar hlutverk og stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi á næstu áratugum. 1. minni hluti leggst alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt og leggur til m.a. að 6. og 8. gr. frumvarpsins verði felldar brott, enda munu þau ákvæði hafa gríðarlegar neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir fólk á flótta og samfélagið í heild og mun ég fara nánar yfir það á eftir.

Í umsögn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands var fundið að því að hvorki væri vísað til ákvæða stjórnarskrár né mannréttindasáttmála Evrópu í athugasemdum með frumvarpinu. Þetta væri afar óheppilegt þar sem efni frumvarpsins varðaði með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Vísaði stofnunin til þess að til álita kæmi hvort ákvæði, t.d. í 6. gr. frumvarpsins um brottfall þjónustu, samræmdist 65. gr. stjórnarskrár, 68. gr. stjórnarskrár og 76. gr. stjórnarskrárinnar, auk 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu.

Nefndarmenn stjórnarandstöðu vöktu athygli á þessu í allsherjar- og menntamálanefnd og gerðu tillögu um að málinu yrði vísað til ráðuneytis þar sem það væri ótækt til áframhaldandi þinglegrar meðferðar í ljósi þeirra athugasemda sem fram komu frá Mannréttindastofnun Háskóla Íslands. Þegar ekki var orðið við þessu óskuðu þrír nefndarmenn eftir því að Mannréttindastofnun eða Lagastofnun Háskóla Íslands yrði fengin til að leggja mat á það hvort frumvarpið stæðist yfirleitt ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Nei, meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar, sem innihélt fulltrúa allra þriggja flokkanna, var ekki til í að fallast á slíkt en málið skyldi tekið aftur til umræðu án þess að slík grundvallarvinna lægi fyrir. Er það miður.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skilaði umsögn um frumvarpið. Sú umsögn hvarf reyndar ofan í einhverja skúffu og kom í ljós þegar eftir henni var leitað en í þeirri umsögn var vísað til fyrri umsagnar stofnunarinnar um eldri frumvörp sem ekki urðu að lögum. Í umsögn Flóttamannastofnunar, þessari nýjustu sem og þeim eldri, komu margvísleg tilmæli stofnunarinnar fram en ekki hafa verið gerðar neinar breytingar á efni frumvarpsins í samræmi við ábendingar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að taka fram að í 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í samræmi við 35. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og útlendingalaga, og þá einnig þegar kemur að breytingum á útlendingalögum ber stjórnvöldum, í samræmi við þennan samning sem við erum aðilar að, að hafa samráð og samtal við Flóttamannastofnun. Slíkt hefur ekki gerst og ekkert verið hlustað á þessa alþjóðlegu stofnun sem við erum þó í samstarfi við og aðilar að. Stjórnvöld hafa hunsað þetta og núna einnig meiri hluti í allsherjar- og menntamálanefnd. Meiri hluti á Alþingi Íslendinga hefur sem sagt farið gegn þessum samningi.

Frú forseti. Það eru nokkur ákvæði í frumvarpinu sem nauðsynlegt er að vekja sérstaklega athygli á sem munu ýmist valda miklu tjóni eða eru í eðli sínu óframkvæmanleg. Í 8. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um regluna um fyrsta griðland, þ.e. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Í athugasemd með ákvæðinu kemur fram að ákvæði í lögum um fyrsta griðland hafi ekki verið beitt að fullu þar sem það sé talið óskýrt og þess vegna eigi nú að árétta það. 1. minni hluti vill vekja athygli á því að hér er ekki einungis lagt til að festa í sessi regluna um fyrsta griðland heldur einnig regluna um öruggt þriðja ríki. Reglan um öruggt þriðja ríki er mun umdeildari en reglan um fyrsta griðland og er beiting hennar háð fleiri og þrengri skilyrðum en beiting reglunnar um fyrsta griðland.

Þetta er rosalega mikil lögfræði en við verðum bara að þola það því að við erum jú löggjafinn. Til útskýringar þá lýtur reglan að því að mögulegt verði að synja umsækjanda um efnismeðferð hafi hann slík tengsl við þetta umrædda þriðja ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji frekar þar en hér. Athygli er vakin á því að hér er ekki átt við ríki sem eru aðilar að Dyflinnarreglugerðinni. Nei, af því að Dyflinnarreglugerðin á við um það fólk. Hér er verið að tala um þriðju ríki sem eru þá ríki utan Dyflinnarreglugerðar. Hér er ekki verið að ræða um það að Ísland hafi gert einhverja sérstaka viðtökusamninga við þessi ríki um móttöku á umsækjendum um alþjóðlega vernd. Það er ekki gert skilyrði í þessu ákvæði að umsækjandi hafi dvalið í ríkinu eða hafi þar heimild til dvalar. Nei, ekki heldur. Þá er heldur ekki gerð krafa um að viðkomandi ríki sé aðili að flóttamannasamningnum þó að fram komi í greinargerð að nauðsynlegt sé að þau réttindi sem mælt er fyrir um í samningnum séu virt.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði í umsögn sinni til Alþingis verulegar athugasemdir við þetta umrædda ákvæði og telur 1. minni hluti ljóst að verði ákvæðið að lögum muni það leiða til aukins vanda í kerfinu okkar með tilheyrandi kostnaði. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda þess að synja einstaklingi um efnislega meðferð og senda hann þriðja ríkis að viðkomandi hafi einhverja heimild til dvalar í því ríki og að stjórnvöld í viðtökuríki hafi samþykkt að taka á móti umsækjanda. Það kom enda fram á fundi nefndar með fulltrúum Flóttamannastofnunar að slíkt væri eitt grundvallarskilyrða fyrir því að beita þessu ákvæði.

Hafi íslensk stjórnvöld ekki gert sérstaka viðtökusamninga á borð við þá sem felast í Dyflinnarreglugerðinni er ljóst að gríðarlegt skrifræði mun fylgja umræddri lagabreytingu. Það er nefnilega viðbúið að umsækjendur sem synjað hefur verið um efnismeðferð á þessum grundvelli þurfi að bíða mjög lengi hér á landi eftir því að yfirgefa landið og í mörgum tilvikum verður einfaldlega ekkert hægt að senda fólkið í burtu. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að fólk eigi rétt á endurupptöku máls, munið þið, það er verið að fella það út, fáist ekki samþykki viðtökuríkis fyrir að taka á móti fólkinu.

Nú skulum við sjá dæmi. Til Bandaríkjanna kemur flóttamaður frá Mexíkó. Umræddur einstaklingur á systur á Íslandi og er þar með tengingu við Ísland. Myndu íslensk stjórnvöld einhvern tíma samþykkja að taka á móti umræddum einstaklingi, einstaklingi sem hefur aldrei hefur komið hingað, haft nokkur réttindi hér en á þessa systur? Nei, að sjálfsögðu ekki. Það er engin heimild fyrir því í íslenskum lögum. Við hins vegar ætlum hér að heimila það að neita einstaklingi, sem kemur til Íslands og sækir hér um vernd, neita honum um vernd og efnismeðferð á þeim forsendum að viðkomandi einstaklingur geti átt systur í Bandaríkjunum þó að hann sé frá Mexíkó, þótt hann hafi engin réttindi þar og við séum ekki með neinn samning við Bandaríkin. Við getum alveg haldið áfram um alls konar ríki utan Dyflinnarreglugerðar. Þetta er óframkvæmanlegt, frú forseti. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar og meiri hlutinn hér, stjórnarmeirihlutinn á þingi, verður að átta sig á hvað hann er að gera. Þetta er bara bull. Það er ekki hægt að framkvæma þetta. Ef Ísland er ekki með samning við ríkið um að senda fólk til baka þá er það ekki hægt. Þú getur ekki droppað fólki bara eitthvert.

Með öðrum orðum er hér um að ræða lögfestingu á afar umdeildu ákvæði því að vafi leikur á hvort senda megi einstaklinga til þriðja ríkis í öðrum tilvikum en þeim þegar þeim hefur verið veitt vernd af einhverjum toga í því ríki. Jafnvel þá leikur vafi á hvort það sé yfirleitt hægt. Flóttamannastofnun hefur varað við því að þetta sé gert og sett fram afar ströng skilyrði fyrir því að reglunum sé beitt, en aftur: Stjórnarmeirihlutinn hlustar bara ekkert á Flóttamannastofnunina, það kemur þeim ekki við hvað Flóttamannastofnunin segir.

Rætt hefur verið að hér sé komin einhvers konar innleiðing á alheims-Dyflinnarreglugerð án aðildarríkja og án þeirra lágmarksréttinda sem reglugerðin sú, sem þó er mjög gagnrýnd, inniheldur, svo sem um sameiningu fjölskyldu, aukin réttindi fylgdarlausra barna, auk þess sem í reglugerð þeirri er að finna mikilvæg ákvæði um tímafresti til að tryggja skilvirkni, tryggja réttaröryggi. Þá skulum við ekki gleyma að upplýsinga- og samskiptakerfi aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar er mjög skilvirkt og þróað eftir áralanga meðferð aðildarríkjanna en við erum ekki með neitt slíkt alheimskerfi, frú forseti. Við ætlum bara að senda fólk eitthvert einhvern veginn.

Hver á að vinna þetta? Hvaða fólk inni í stjórnkerfinu á að vinna við það að reyna að finna ferðir fyrir þetta fólk og eiga í samskiptum við þetta umrædda þriðja ríki um mögulega móttöku á fólki sem ekki fær efnismeðferð hér á landi? Það er enginn stjórnarliði tilbúinn til að svara því. Því get ég lofað af því að þið hafið ekki hugmynd um hvernig á að framkvæma þetta, ekki hugmynd. Það er enginn reki gerður að því í nefndaráliti að svara því hvernig á að framkvæma þetta. Við erum ekki með þessa samninga. Við erum ekki með utanríkisþjónustu sem getur sinnt þessu. Þetta fólk mun daga uppi án þjónustu af því að vitið til, það verður örugglega túlkað þannig að viðkomandi sé ekki í samvinnu.

Fyrsti minni hluti leggur til að 6. gr. frumvarpsins falli brott. Í ákvæðinu er lagt til að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sviptir þjónustu 30 dögum eftir að ákvörðun um synjun verður endanleg á stjórnsýslustigi, enda flokkist fólk þá ekki lengur sem umsækjendur um vernd heldur bara útlendingar og eigi þar með ekki rétt til þjónustu sem umsækjendum er tryggð. Þrátt fyrir að gerðar séu undantekningar á þessu þegar um börn er að ræða, barnshafandi konur og sérstaklega viðkvæma einstaklinga, auk þess sem heimilt er að viðhalda þjónustu til handa þeim sem sýnt hefur samstarfsvilja, eins og hefur komið fram hér í dag, er þetta ákveðið, að fella niður þjónustu.

Verði tillagan um þjónustusviptingu að lögum verða kaflaskil í meðferð íslenskra stjórnvalda á fólki sem óskað hefur eftir vernd. Það skal áréttað að flest sem synjað er um vernd yfirgefa landið helst sjálfviljug vegna þess að annars fá þau brottvísun og endurkomubann inn á svæðið en þau fara líka í svokallaðri þvingaðri brottvísun ef það er hægt. Undirbúningur þvingaðrar brottvísunar getur tekið langan tíma og það er fyrst og síðast á ábyrgð stjórnvalda að framkvæma brottvísun sé umsækjandi ekki reiðubúinn að yfirgefa landið. Með því að nota þessa þjónustusviptingu til að þrýsta á umsækjendur að yfirgefa landið er heimilisleysi, sár fátækt og skortur á heilbrigðisþjónustu notaður sem tæki til að takmarka straum flóttafólks til landsins og neyða fólk til að fara. Mun það tæki virka? Nei, því við erum að tala um að rök stjórnvalda fyrir þjónustu frystingunni eru þessi.

Fyrsti minni hluti telur óraunhæft að gera ráð fyrir að allir umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni yfirgefi landið sjálfviljugir innan 30 daga frá endanlegri synjun. Fólk sem telur sig ekki geta farið til heimaríkis eða annars viðtökuríkis eða á hreinlega ekki ferðaskilríki verður hér áfram. Svona einfalt er það. Meginþorri fólks fer. Það er líka svona einfalt. Þetta fólk hverfur ekki heldur lendir á götunni og á öðrum kerfum samfélagsins. Þannig mun það falla sveitarfélögum í skaut að veita fólkinu lágmarksþjónustu eigi það ekki að deyja drottni sínum á götunni. Þar með virðist sá hvati verða að engu sem stjórnvöld sáu fyrir sér með þessari breytingu þar sem þjónustan fer annað, annaðhvort fellur hún alveg niður eða hún fer bara annað. Hafi fólk ekki rétt á heilbrigðisþjónustu má leiða líkum að því að það leiti sér ekki aðstoðar fyrr en það er orðið fárveikt. Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að sinna veiku fólki en hafi það ekki hlotið læknisþjónustu um langt skeið eru auknar líkur á því að sjúkdómar og kvillar krefjist flóknari og dýrari meðferðar en ella. Kostnaður vegna þess fellur á þá heilbrigðisstofnun sem sinnir viðkomandi sjúklingi.

Þá er vert að vísa í umsögn Læknafélagsins þar sem áréttað er að það að njóta heilbrigðisþjónustu er grundvallarmannréttindi, eins og kemur fram í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest. Er það áréttað í Helsinki-yfirlýsingunni sem eru siðferðilegar meginreglur lækna og kveða á um skyldu þeirra til að aðstoða fólk í neyð.

Jafnframt vísar 1. minni hluti til umsagnar embættis landlæknis sem segir það óásættanlegt að svipta fólk réttindum til heilbrigðisþjónustu. Segir enn fremur að embættið telji heilbrigðisþjónustu vera grundvallarmannréttindi sem byggist á alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Það bjóði heim hættu fyrir aðra en umsækjendur um vernd ef einstaklingur er t.d. haldinn smitsjúkdómi eða geðröskun og fær ekki bót meina sinna í heilbrigðisþjónustunni vegna þess að hann var sviptur þeirri þjónustu. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sagði að þetta yrði leyst með því að viðkomandi væri í einhverjum samningaviðræðum við stjórnvöld, hvernig sem það er orðað.

Í lögum um Félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili á landinu skuli í sérstökum tilfellum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Er kveðið á um rétt sveitarfélaga til endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna aðstoðar við erlenda borgara sem ekki eiga lögheimili í landinu. Umrætt ákvæði var mjög mikið rætt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og er enn eitt tilefni þess að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að vera hér í umræðunni af því þetta er jú líka á hans borði.

Til ákvæðisins er jafnan vísað með orðunum aðstoð við útlendinga í neyð og telja sveitarfélög sér skylt að veita útlendingum aðstoð samkvæmt því. Fram kom við umfjöllun nefndarinnar að sveitarfélög fái í flestum tilvikum aðstoðina endurgreidda úr ríkissjóði. 1. minni hluti bendir á að til þess að einstaklingur geti óskað eftir umræddum stuðningi þarf hann í fyrsta lagi að vita af umræddum stuðningi. Hvar á hann að fá þessar upplýsingar? Verður það kannski þegar hann verður sofandi hérna á bekknum úti á Austurvelli og lögreglan að labba fram hjá til að athuga hvort hann hafi nokkuð frosið í hel? Verður það þar? Hver á að veita þessar upplýsingar? Hvernig á um að umsækjandi um vernd sem hefur fengið synjun, og er þá ekki lengur umsækjandi heldur bara útlendingur, að vita af þessu? Hver ber ábyrgðina á að upplýsa viðkomandi? Viðkomandi á enga heimtingu á neinni þjónustu, ekki heldur samtali.

Fyrsti minni hluti fær ekki séð hvernig þetta úrræði muni auka skilvirkni í málaflokknum eða búa til þann þrýsting til brottfarar sem sagður er hvatinn að niðurfellingu þjónustu eins og ákvæðið ber með sér ef staðan er, eins og stjórnarliðar vilja meina, til að friða samvisku sína, að þjónustan færist á milli stjórnsýslustiga en sé þó á endanum greidd af sama ráðuneyti þegar sveitarfélög fóru eitt af öðru að kvarta hér og segja: Við höfum ekki efni á því að fara að taka þetta allt í fangið. Ef þjónustan færist öll til sveitarfélaganna, hver er þá ávinningurinn?

Fyrsti minni hluti telur þessa tilfærslu eingöngu til þess fallna að flækja verkefnið, gera það óskilvirkara, óskýrara, dýrara, það kallar á meiri mannafla þegar fólk þarf að kæra, þegar lögreglan þarf að fara að taka stjórnvaldsákvarðanir o.s.frv. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að svipta ákveðinn hóp, þó að hann sé án kennitölu og dvalarleyfis, algerlega réttinum til grunnþjónustu á borð við húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónustu sé mögulega brot á 76. og 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, eins og nefndinni hefur svo sem verið bent á.

Það að frumvarpshöfundar hafi ekki hugleitt að verkefnið myndi við þetta færast til sveitarfélaga í formi stuðnings við útlendinga í neyð sýnir að yfirsýn yfir þetta verkefni, yfir málaflokkinn, virðist af svo skornum skammti að þegar þau gera breytingar á A átta þau sig ekki á hvað gerist við B, C, D og E. Það er miður af því að undir er fólk sem þarfnast verndar, þarfnast mannúðar og kærleika. Þetta er venjulegt fólk. Þetta eru ekki bara tölur á blaði, þetta eru ekki allt bara einhverjir útlendingar.

Rúmlega 80% af þeim sem hingað hafa leitað koma frá þjóðum sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að veita ákveðna vernd, rúmlega 80%, frá Úkraínu og Venesúela. Við skulum ekki gleyma því. 0,02% af umsóknum, 9 af 4.500 umsóknum á síðasta ári, voru tilhæfulausar. Það eru þær umsóknir sem hæstv. dómsmálaráðherra og meiri hlutinn á Alþingi er núna að bregðast við, það er þannig, og heldur að hann sé að bregðast við. 9 af 4.500.

Þá er ekki úr vegi, frú forseti, að nefna þá grundvallarbreytingu sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til sem er að eftirleiðis verði í höndum lögreglu að ákveða undanþágu frá því að þjónustan sé felld niður. Það kom fram í heimsóknum lögreglu til nefndarinnar að þetta sé stefnubreyting á þeirra störfum enda hefur lögreglan til þessa dags verið framkvæmdaraðili gagnvart ákvörðunum útlendingayfirvalda en ekki ákvörðunaraðili og er það þeim mjög mikilvægt. Það að lögregla eigi núna að fara að taka ákvörðun í slíkum málum sem þessum er stjórnvaldsákvörðun í sjálfu sér og því kæranleg.

Eins og fram kom í andsvari við formann nefndarinnar hefur ekkert verið hugsað út í þetta. Slík vinna sem nú á að fela lögreglu hefur ekki verið kostnaðarmetin né heldur hefur átt sér stað þarfagreining á umfangi verkefnisins sem eftirleiðis, verði tillaga stjórnarliða samþykkt, verður á höndum fulltrúa ríkislögreglustjóra, má búast við. Þá er mikilvægt að gera sér grein fyrir að lögreglan hefur ekki í fórum sínum allar upplýsingar um þá einstaklinga sem um ræðir og því þarf að breyta öllum verkferlum með tilliti til þeirrar rannsóknarvinnu sem nú færist yfir til lögreglu en áður var tekin ákvörðun um þetta hjá útlendingayfirvöldum.

Jú, það hefur verið tekin ákvörðun um hvort viðkomandi sé í neyð og þess vegna var viðkomandi synjað. En aðstæður geta breyst. Einstaklingur getur veikst, börn geta veikst. Konur geta orðið barnshafandi. Það getur eitthvað komið upp á. Það er einmitt í slíkum aðstæðum sem þarf að vera hægt að meta og taka ákvörðun. Það er ekki er gert ráð fyrir því af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Það kom einnig fram fyrir nefndinni að þessi stefnubreyting er gerð einhliða af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og ráðherra dómsmála, en ekki í samráði við lögreglu.

Fyrsti minni hluti leggst alfarið gegn þeim breytingum sem lagðar eru til á afmörkun tímafrests í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Frá gildistöku þeirra hafa ítrekað komið upp mál barna sem dvalið hafa hér á landi um langt skeið og fest rætur en verið synjað um alþjóðlega vernd. (Forseti hringir.) Má nefna það í lokin, af því að tíminn er útrunninn, að það er miður að verið sé að breyta ákvörðunum frá fyrri dómsmálaráðherrum sem veittu einmitt börnum sem höfðu fest hér rætur ákveðna vernd, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, (Forseti hringir.) sem veittu þessum börnum vernd en meiri hlutinn hefur ákveðið að fella niður.