Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór mikinn að vanda og það fer svo sem ekki á milli mála að hv. þingmaður hefur ágæta þekkingu á þessum málaflokki, enda starfað við þessa grein. Hún fór hér yfir minnihlutaálitið og það er svo sem ekkert nýtt þar. Hv. þingmaður fjallar um flest efnisatriði frumvarpsins og fer um það hörðum orðum eins og við höfum tekið eftir. Þetta eru sömu efnislegu athugasemdirnar og hv. þingmaður hefur gert við málsmeðferðina í nefndinni. Það vekur hins vegar athygli að hv. þingmaður talar um aðför að réttindum fólks á flótta og skerðingu á réttindum fólks á flótta, en frumvarpið skerðir að engu réttindi fólks á flótta. Það er verið að slá svolítið saman réttindum flóttafólks og réttindum útlendinga í ólögmætri dvöl.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í — nú sé ég að tíminn er svo til runninn út — hvort það væri aðför að réttindum fólks á flótta þegar verið er að vísa því úr landi þegar það hefur farið alla kæruleið (Forseti hringir.) með löglærðan fulltrúa eða talsmann með sér og hefur lokið allri sinni efnislegu meðferð. Er það aðför að fólki að þegar það dvelur ólöglega í landinu, þá verði það að yfirgefa landið?