Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil næst víkja aðeins að því þegar hv. þingmaður segir að frumvarpið brjóti gegn stjórnarskránni. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur beint spjótum sínum að breyttu mati á endursendingum, sérákvæðum um börn og rétt útlendinga til aðgangs að dómstólum. Frumvarpið mælir hins vegar ekki fyrir um þessi atriði. Meginþunginn í athugasemdum Mannréttindastofnunar Háskólans varðar niðurfellinguna eftir 30 daga í 6. gr. Ég tel að það sé alveg augljóst að það geti ekki talist til mannréttinda að vera í fríu fæði, húsnæði og uppihaldi ríkisins eftir að þú hefur fengið endanlega niðurstöðu í þínu máli um að þú eigir að yfirgefa landið. Hvernig fær hv. þingmaður það út að það sé mannréttindabrot þegar þú ert orðinn ólöglegur í landinu? Þú ert hérna í landinu í trássi við lögmæta ákvörðun stjórnvalda. (Forseti hringir.) Hvernig má vera að það geti verið mannréttindabrot að vera ólöglegur á Íslandi, þiggja fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera og neita að fara úr landi?