Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:32]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Loftslagsmálin eru ein stærsta áskorun okkar tíma og loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn þar sem þessi mál eru til umfjöllunar. Það er alltaf vel við hæfi að ræða loftslagsmál hér á Alþingi, eins og reyndar í samfélaginu öllu. Um leið og ég þakka málshefjanda hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir frumkvæðið að umræðunni vil ég taka fram að ég mun nálgast umræðuna með þeim hætti að ræða stuttlega heildarmyndina í þessum málum áður en ég sný mér að því að svara spurningum hv. þingmanns. Ég tel það hreinlega nauðsynlegt að ræða hvert við ætlum okkur og hvað hefur áunnist síðastliðið ár.

Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Við fylgjum þar Evrópusambandsþjóðunum og Noregi og eru markmiðin meðal þeirra metnaðarfyllstu sem sett hafa verið fram á alþjóðavettvangi og í samræmi við markmið Parísarsamningsins. Auk þessara alþjóðlegu skuldbindinga setti ríkisstjórnin sér enn metnaðarfyllri sjálfstæð markmið um kolefnishlutleysi 2040 og að við verðum fyrst þjóða óháð jarðefnaeldsneyti.

Það er ekkert leyndarmál að ég hef lagt á það höfuðáherslu frá því að ég tók við þessum málaflokki að við beinum kröftum okkar að því að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur fremur en að leggja áherslu á að setja ný markmið. Í því samhengi er gott að skoða síðasta sjálfstæða markmið ríkisstjórnarinnar, þ.e. sem er næst okkur í tíma. Við settum okkur markmið um 55% samdrátt í losun á beina ábyrgð Íslands fyrir 2030. Til að ná því markmiði þurfum við að draga saman losun um 1,3 milljónir tonna á næstu sjö árum. Það er ekkert smáræði. Meginþorri þessarar losunar er í samgöngum á landi. Við þurfum því að hlaupa ansi hratt í orkuskiptum til að ná þessu markmiði. Á síðasta ári stigum við gríðarlega mikilvægt skref þegar kemur að orkuskiptunum, við rufum níu ára kyrrstöðu með samþykkt 3. áfanga rammaáætlunar. Við kláruðum aflaukningarfrumvarpið sem heimilar stækkun á virkjunum í rekstri og einfölduðum styrkjaumhverfi til umhverfisvænnar húshitunar.

Nú stendur yfir endurskipulagning umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess með það fyrir augum að vera betur í stakk búin að ná þessum gífurlega háleitu markmiðum. Markmiðið með þessum skipulagsbreytingum er að einfalda verkferla, færa störfin út á land nær verkefnunum og að skipulagið þjóni verkefnum sem eru fram undan. Síðast en ekki síst viljum við stytta og einfalda leyfisveitingaferlið í kringum græna orkuöflun. António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, skrifaði m.a. grein um þetta í íslensk blöð fyrir ekki löngu síðan, að ef heimsbyggðin ætli að ná grænum orkuskiptum þurfi þjóðir heimsins að leggja kapp á að einfalda leyfisveitingaferlið í grænni orkuframleiðslu.

Síðastliðið haust setti ég á fót teymi sem vinnur nú náið með atvinnulífinu að skilgreiningu, undirbúningi og innleiðingu áfangaskiptra losunarmarkmiða fyrir hvern geira atvinnulífsins. Verkefnið nefnist Loftslagsvegvísir atvinnulífsins og vinnan felur í sér markmiðssetningu og tillögur að aðgerðum sem geta dregið úr losun frá hverri og einni atvinnugrein. Vinnan er unnin á forsendum atvinnugreinanna og af einstaklingum og sérfræðingum innan þeirra greina. Ég bind miklar vonir við þetta samvinnuverkefni stjórnvalda og atvinnulífsins enda er það augljóst að við munum ekki ná þeim árangri sem við ætlum okkur án þess að allir aðilar vinni saman. Vinnuáætlun ráðuneytisins gerir ráð fyrir að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði uppfærð í kjölfar geirasamtalsins.

Varðandi stofnun og þátttöku Íslands í alþjóðlega hamfarasjóðnum, sem ákveðið var að stofna á COP27, er vert að taka fram að enn á eftir að útfæra allt regluverk sjóðsins, þar með talið úthlutunarreglur og hvernig hann er fjármagnaður. Við munum taka ákvörðun um framlög til sjóðsins þegar reglur sjóðsins liggja fyrir og þá í samhengi við framlög okkar til alþjóðlegra loftslagsmála, svo sem aðlögunarsjóðsins og græna loftslagssjóðsins.

Þegar kemur að framlagi okkar og samningsmarkmiðum fyrir næstu loftslagsráðstefnu, COP28 í Dubai í lok þessa árs, er í raun of snemmt að segja til um það nákvæmlega hvert verði samningsmarkmið Íslands á þeim fundi. Það er hins vegar ljóst að Ísland mun áfram halda á lofti markmiðum um að hitastig jarðar hækki ekki umfram 1,5°C og að horft verði til nýjustu vísinda við ákvarðanatöku. Jafnframt verður lögð áhersla á aðgerðir sem draga úr losun og að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Það er líka mikilvægt að horft verði til líffræðilegrar fjölbreytni við ákvarðanatöku um öll verkefni sem ráðist er í, en við getum valdið óafturkræfum skaða á líffræðilegri fjölbreytni ef ekki er litið til verndunar hennar.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að hlusta á innlegg hv. þingmanna hér í þessari mikilvægu umræðu.