Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:38]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þegar talað er um loftslagsmálin í heiminum er mikilvægt að skoða heildarmyndina og stöðu Íslands í samhengi hlutanna á heimsvísu. Bandaríkin losa 5 milljarða tonna af koltvísýringi á ári. Þar hefur náðst fram samdráttur en fyrir tæpum 20 árum var losunin 6 milljarðar. Þeirra hlutdeild í losun á heimsvísu er 13,5%. Kína losar 11 milljarða tonna á ári af koltvísýringi. Losun koltvísýrings í Kína vex í veldisvexti ár frá ári og er eina frávikið síðustu hálfa öldina þegar framleiðsla dróst saman vegna Covid-19. Þeirra hlutdeild í losun á heimsvísu er 30,9%. Samanlagt losa Bandaríkin og Kína 44,4% af koltvísýringi. Íslendingar losa hins vegar 3,5 milljónir tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið á ári. Hlutdeild okkar á heimsvísu er því 0,01%. Það þýðir að Ísland losar eitt af hverjum 10.000 tonnum sem mannkynið losar af koltvísýringi á ári. Af framangreindu má vera ljóst að innlend stefnumótun í loftslagsmálum hefur enga þýðingu hvað hlýnun jarðar varðar en það þýðir ekki að Ísland eigi ekki að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi. Við eigum að gera það og við eigum að fara í orkuskipti eins og við best getum með okkar innlendu orkugjafa, græna orkugjafa. Það er það sem skiptir máli. Við getum dyggðaskreytt okkur út í hið óendanlega en það mun ekki skipta neinu máli þegar öllu er á botninn hvolft. Það eru bandarísk stjórnvöld og kommúnistaflokkurinn í Kína sem hafa völdin í þessum efnum.

Því má ekki gleyma að stór hluti innlendrar losunar á koltvísýringi er til kominn vegna reksturs álvera. Eftirspurnin eftir álinu myndar verðið og ef ál er ekki framleitt hér á landi með okkar grænu orku þá finna framleiðendur aðra staði fyrir álver. Eins og flestir vita er mun skárra að knýja álver með fallvatnsorku í stað kola, a.m.k. hvað varðar hlýnun jarðar. Við skulum einnig hafa í huga að við höfum náð árangri. Við höfum náð samdrætti í losun undanfarna áratugi ef litið er til landnýtingar og árleg losun gróðurhúsalofttegunda á hvern Íslending minnkaði úr 13 tonnum á ári árið 1990 í 8 tonn árið 2019.