Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um markmið Íslands í loftslagsmálum og niðurstöður loftslagsráðstefnunnar. Stjórnvöld hafa sett metnaðarfullt markmið í loftslagsmálum um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og að Ísland verði kolefnishlutlaust 2040 og þá óháð notkun jarðefnaeldsneytis. Markmiðin eru skýr og við erum í einstakri aðstöðu til að ná þeim. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum er safn aðgerða sem unnið er að til að ná markmiðunum. Þær eru ólíkar, raunhæfar, nauðsynlegar og skipta máli en þurfa auðvitað að þróast. Árangurinn ræðst svo af því hvernig til tekst með samvinnu, eins og raunar á svo mörgum sviðum, samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, samvinnu ólíkra atvinnugreina, samvinnu stjórnvalda og háskóla um nýsköpun, samvinnu heimila og atvinnulífs og svo mætti lengi telja. Það er mikill metnaður hjá atvinnulífinu sem skilar okkur mjög langt í áttina að þessum markmiðum. Í minni heimabyggð hefur útgerðin t.d. náð miklum árangri í að draga úr útblæstri síðustu ár og það er liður í hagkvæmum rekstri að gera enn betur. Skógarbændur vinna að bindingu kolefnis og sjálfbærri nýtingu íslensks timburs. Með öðrum orðum, atvinnulífið er á tánum en stjórnvöld þurfa áfram að uppfæra aðgerðir, stefnumótun, upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga til stuðnings atvinnulífinu. Þar koma inn aðgerðir eins og umbótavinna varðandi bókhald, loftslagsbókhald landnotkunar og hvernig umgjörð við ætlum að skapa rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi.

Hæstv. forseti. Við hljótum t.d. að stefna á að rafeldsneytisnotkun íslenskra skipa komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi. Við þurfum fleiri vörður á leiðinni þangað.