Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:45]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að vekja máls á niðurstöðum COP27. Ég vil nýta tíma minn í dag til að ræða um það sem við getum kannski kallað afsprengi þeirrar leiðar sem við erum á í átt að grænu samfélagi en það er grænþvottur. Áform um vindmyllugarða allt í kringum landið hafa ekki farið fram hjá neinum og sjáum við fjölda aðila, opinbera og í öðrum geirum, bjóða sig hása í von um hlutdeild í þeirri rússnesku rúllettu sem samvist íslenskrar náttúru og erlends stórkapítals er. Undir eru lagðar auðlindir þjóðarinnar og víðerni án þess að hugað sé að framtíðinni. Hér þarf að beisla vindinn eins og vatnið og teyma náttúruöflin við hæl til að standa undir þeirri gríðarmiklu orkuþörf sem fjöldi fólks telur fámennt eyríki í Norður-Atlantshafi þurfa á að halda. En hvers vegna er ég að ræða um vindorku þegar verið er að ræða skuldbindingar Íslands og COP27? Jú, það er stóra samhengið. Umræðan um loftslagsvána verður að innibera og umbera náttúruna. Ég vitna til orða Auðar Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, með leyfi forseta, en hún skrifaði um dag náttúrunnar á COP27:

„Augljóslega gengur ekki að leysa eina krísu með annarri krísu. Ef loftslagskrísan er leyst með aðgerðum sem eyða náttúru og skaða vistkerfi verður mjög stutt í næstu krísu sem ógnar framtíð mannkyns.“

Það er því ekki að tilefnislausu að ég vek máls á þessu. Hér á landi þurfum við bætta nýtingu auðlinda, endurhugsa orkunotkun þungaiðnaðar en ekki hoppa á grænþveginn vindorkuvagninn.