Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:47]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Í upphafi árs setjum við okkur gjarnan markmið og það er þess vegna viðeigandi að eiga umræður um markmið hér í þessum sal í janúarmánuði. Við sem höfum reynslu af fagurgala janúarmánaðar vitum þó líka að til að ná markmiðum fram þarf aðgerðir. Það er ókosturinn við áramótaheitin, þeim fylgir vinna, það þarf fókus, það þarf tímalínu og í einhverjum tilvikum þarf að forgangsraða fjármunum. Það þarf að hætta einhverju til að geta gert meira af einhverju öðru. Handahófskennt dæmi hér er að markmið um að léttast um 10 kíló næst ekki af sjálfu sér, jafnvel þó að frá þessu markmiði sé sagt, jafnvel opinberlega, og það getur sá þingmaður sem hér stendur staðfest. En svona eru markmið Íslands í loftslagsmálum. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur margsinnis greint stoltur frá metnaðarfullum markmiðum ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en staðreyndin er sú að aðgerðirnar, fókusinn, tímalínan og fjármögnunin fylgir einfaldlega ekki. Þessi markmið eru þess vegna jafn líkleg til að nást fram og hjá manneskju sem lýsir því yfir, jafnvel í votta viðurvist, að hún ætli sér að missa 10 kíló en breytir síðan í engu lifnaðarháttum, ekki mataræði eða hreyfingu.

Ég styð markmið íslenskra stjórnvalda heils hugar en ég hef miklar áhyggjur af því hversu illa gengur að fá fram skýr svör um aðgerðir og reyndar líka um það hver markmiðin eru. Forsætisráðherra sagði í desember 2020 að hlutdeild Íslands í 55%-markmiði ESB gæti verið á bilinu 40–45% samdráttur. Síðan þá heyrum við ekki þessa tölu eða hver talan á að vera. Við heyrum talað um samflot við Evrópusambandið og Noreg. Norðmenn hafa lýst því yfir hvert markmiðið er af þeirra hálfu. Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki gefið það upp skýrt hvert sjálfstætt markmið Íslands er í þessum efnum?