Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mig langaði að segja hér í síðari ræðu nokkur orð um endurheimt votlendis sem kynnt var til sögunnar fyrir rúmum 20 árum. Eftir því sem mér skilst er um áratugur síðan endurheimt votlendis fékkst viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum sem mótvægisaðgerð í loftslagsmálum. Ég nefni þetta því mér bárust í gær svör frá hæstv. matvælaráðherra við skriflegri fyrirspurn sem ég lagði fram um endurheimt votlendis á ríkisjörðum. Ég hvet þingmenn til að skoða þessa fyrirspurn. Samtals er þekja framræsts votlendis á jörðum í eigu ríkisins um 18.000 hektarar. Ég spurði hversu mikið af þessu votlendi ríkið hefði endurheimt og tölurnar finnst mér segja nokkra sögu, en af þessum 18.000 hekturum hafa 80 verið endurheimtir. Í svari ráðherra segir að áhugi og geta sé til staðar til að fara í frekari endurheimt votlendis á jörðum í eigu ríkisins og að Landgræðslan og Framkvæmdasýslan eigi í samtali um aðgang að fleiri jörðum í þessum tilgangi, og er það vissulega jákvætt. En hér þarf auðvitað líka að benda á að samhliða þessum tölum, þ.e. að árangurinn allur sé 80 hektarar, er staðreyndin jafnframt sú að enn er verið að grafa skurði til að ræsa fram votlendi. Í því sambandi held ég að þurfi að benda á að þetta sé enn staðan en jafnframt vekja athygli hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á eftirlitsþættinum hvað þetta varðar. Ég myndi vilja sjá hæstv. umhverfisráðherra og matvælaráðherra taka saman höndum hvað þetta varðar. Eins og ég byrjaði á þá hvet ég hv. þingmenn til að skoða svör matvælaráðherra við þessari fyrirspurn því að þarna kemur sitthvað áhugavert fram.