Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:34]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það liggur auðvitað fyrir í þessari umræðu að ég og hv. þingmaður erum ekki sammála um þá leið sem á að fara. Hann styður þetta frumvarp en ég geri það ekki og það snýr auðvitað að fjölmörgum þáttum þess. Nú er það þannig að það hafa býsna margir viðrað þá skoðun sína fyrir nefndinni að mögulega sé verið að brjóta mannréttindi með þessu frumvarpi, það sé verið að skerða rétt fólks ótæpilega mikið á tiltölulega mörgum sviðum. Varðandi þetta með 30 dagana þá er það auðvitað þannig, eins og við erum að tala um, að það liggur ekkert fyrir nákvæmlega, það er allt svo óljóst, hvað tekur við. Mín afstaða liggur líka fyrir í því að ef það er orðið þannig, og þetta hef ég sagt áður í umræðum, að það liggur alveg fyrir að viðkomandi á engan rétt á því að vera á landinu og það blasir ekkert við honum annað en að fara þá er öllum fyrir bestu að viðkomandi fari, ef svo er. En þegar ég var að tala um mannréttindin í þessu þá var ég líka bara að vísa almennt í það að almennileg úttekt á þessu hefur ekki verið gerð. Þetta var ekki gert og það kemur skýrt fram í greinargerðinni og um það snerust öll lætin hér fyrir fáeinum dögum, ég hygg að það hafi ekki farið fram hjá hv. þingmanni.

Ég sakna þess að þessi úttekt hafi ekki verið gerð. Ég sakna þess að ekki hafi verið farið að þeirri einföldu, sanngjörnu og eðlilegu kröfu, miðað við það hvað þetta eru viðkvæm mál, að gerð verði almennileg úttekt á því hvort tiltekin ákvæði þessa frumvarps standist stjórnarskrá. Það leikur verulegur vafi á því og það kemur þá væntanlega til kasta dómstóla að skera úr um það í fyllingu tímans. En ég óttast að í sumum tilfellum verði dómurinn stjórnarmeirihlutanum ekkert sérstaklega hagfelldur.