Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:51]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að leiðrétta þann misskilning hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur að við höfum bara byrjað að tala um stjórnarskrá og annað hér í lokin. Við höfum ítrekað sagt að við teljum að þetta frumvarp og forverar þess séu brot á mannréttindum fólks. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálar sem við höfum skrifað undir fjalla um slíkt. Kannski höfum við ekki verið nógu skýr með það að tala langt og vel og segja: Brot á mannréttindum samkvæmt stjórnarskrá og … (BHar: Öll hin Norðurlöndin hafa líka skrifað undir mannréttindasáttmála.) — Já, og hafa þingnefndir þar neitað að fá óháð álit á því hvort lög standist mannréttindi eða ekki og stjórnarskrá? Ja, hver veit?

Þetta er ekki tafaleikur hjá okkur, frú forseti, þetta er grundvöllurinn að því hvernig við Píratar urðum til, það er að standa vörð um mannréttindi fólks, sérstaklega mannréttindi jaðarhópa. Það hefur ekkert með tafir að gera heldur það eitt að hér séu mannréttindi tryggð og það sé ekki valtað yfir þau, allt af því að það þarf að gera einhverjum aðila til geðs.