Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:09]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegur forseti. Það er ekki laust við að ég finni fyrir smá, með leyfi forseta, „déjà vu“. Ég kann ekkert betra hugtak en það yfir þessa upplifun, en þetta alþjóðlega hugtak. Síðast þegar ég var inni á þingi, í fyrra, var verið að ræða útlendingafrumvarpið. Núna er aftur verið að ræða útlendingafrumvarpið. Ég er reyndar viss um að aðalþingmenn upplifi svipað þar sem þetta útlendingafrumvarp er orðið að föstum lið hérna í þinginu ár eftir ár. Ég bara fæ þetta svona mikið beint í æð með því að taka stikkprufur, ef svo má segja, af því að fara beint frá því að ræða þetta mál og koma til baka og finnast eins og tíminn hafi staðið í stað.

Það er ekki þar með sagt að nákvæmlega ekkert hafi breyst. Í fyrsta lagi erum við núna í 2. umr. en síðast tók ég þátt í 1. umr. 2. umr. þýðir auðvitað að frumvarpið er komið töluvert nær því að vera samþykkt. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að þingmenn láti afstöðu sína í ljós, sem flest.

Í öðru lagi er þessi útgáfa af frumvarpinu aðeins breytt frá því síðast. Þar munar mest um að fallið er frá því að veita heimild til að neyða fólk líkamlega í Covid-próf til að hægt sé að framkvæma brottvísun. Það var þó ekki gert vegna þess að einhver sá að sér heldur vegna þess að hugmyndin er hreinlega úrelt í ljósi þess að ríki eru almennt hætt að gera Covid-próf að skilyrði fyrir því að fólk fái að koma inn um landamæri. Hér erum við sem sé að tala um það fólk sem ílentist hérna á meðan faraldurinn gekk yfir vegna þess að það þótti vandasamt að brottvísa því. Það var vandasamt í framkvæmd.

Saga þess hvernig kerfið hefur gengið fram gagnvart þessu fólki er vægast sagt brokkgeng. Hún er útötuð í óvissu um stöðu þessa fólks í úrskurðum kærunefndar og í héraðsdómi þar sem stjórnvöld voru gerð afturreka með neitanir um efnismeðferð umsóknar þessa fólks sem og í brottvísunum sem hafa verið framkvæmdar þrátt fyrir þennan dóm sem er sennilega fordæmisgefandi fyrir aðra umsækjendur í sömu stöðu. Allt þetta, allan þennan kostnað og þá óskilvirkni sem þetta hefur haft í för með sér á ýmsum stjórnsýslustigum, hefði mátt forðast með því að setja t.d. sérlög um að veita þessu fólki grið, ákveða að taka umsóknir þess til meðferðar í ljósi þess að það sé kannski ekkert sérstaklega sniðugt að vera að senda fólk milli landa í miðjum heimsfaraldri. Það hefði líka mátt forðast þetta með því hreinlega að leyfa 12 mánaða tímafresti að virkjast og láta þannig taka umsóknir þessa fólks til efnismeðferðar í stað þess að standa í stappi við það og vera gerð afturreka með tilraunir til að túlka erfiðleika við að fá þetta fólk í Covid-próf þannig að það hafi verið að tefja málin og eigi því ekki rétt á upptöku þrátt fyrir að tímafrestur hafi liðið. Þessar ítrekuðu viðleitnir til að standa í stappi við að brottvísa fólki má eiginlega einna helst lýsa sem hreinni þráhyggju.

Þetta er í sjálfu sér gott dæmi um óskilvirkni í kerfinu, óvissa með réttindi fólks sem leiðir af því að setja sérviðmið í stað þess að hafa þau einföld og almenn. Einföld viðmið eru reyndar nákvæmlega sú leið sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar vill fara í breytingartillögu sinni. Þar eru þessar sérstöku aðstæður viðurkenndar, alla vega þegar börn eiga í hlut. Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Hafi barn sótt um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. ágúst 2021 og er enn á landinu skal Útlendingastofnun gefa út dvalarleyfi til handa forsjáraðila þess enda hafi slík umsókn borist fyrir 1. mars 2023. “

Hér er fallið að þessum skilyrðum um að ekki hafi verið um tafir af hálfu umsækjanda að ræða. Í nefndaráliti meiri hlutans er síðan vísað í aðstæður vegna Covid. Auðvitað mætti þetta gilda almennt, ekki bara fyrir börn og barnafjölskyldur, og hefði mátt koma fram miklu fyrr og af hálfu ríkisstjórnarinnar í stað þess að það þurfi að skjóta þessu inn til skaðaminnkunar á umdeildu frumvarpi sem snýr að öðru leyti að langmestu leyti að því að þrengja að réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þessi tillaga byggist þannig í raun á allt annarri hugsun en frumvarpið sjálft. Hún er eiginlega skaðaminnkun, tilraun til að koma til móts við önnur sjónarmið sem sjást í frumvarpinu, og er þannig ágæt í sjálfu sér.

Það eru samt mun fleiri atriði í þessu frumvarpi sem hefði mátt stunda svona skaðaminnkun gagnvart. Eitt af þeim alvarlegustu snýst um tafir á málsmeðferð og viðleitni til að herða skrúfurnar þar. Í greinargerð með frumvarpinu er þetta áréttað sérstaklega, með leyfi forseta:

„… í framkvæmd hafa komið upp tilvik þar sem óskýrt orðalag gildandi ákvæðis hefur skapað óvissu og möguleika til misnotkunar, sérstaklega þegar um fjölskyldur eða fólk í hjúskap og sambúð er að ræða. Hefur þannig t.d. almennt verið talið ótækt að láta tafir foreldra eða umsjónarmanna bitna á rétti barna til efnislegrar meðferðar sama hversu augljósar tafir eru á málinu eða hversu einbeittur vilji var til þess að valda þessum töfum. Gildandi lagaákvæði getur því leitt til þess að fjölskyldur með börn á framfæri eða fólk í hjúskap eða sambúð þvingi fram efnislega málsmeðferð einfaldlega með því að tefja mál sitt, svo sem með því að neita að fara í PCR-próf vegna flutnings eða dvelja á ókunnum stað á meðan frestir renna út. Rétt þykir því að skýrt verði kveðið á um í lögum að tafir maka eða sambúðarmaka umsækjanda eða þess sem kemur fram fyrir hans hönd, t.d. foreldra, umsjónarmanna og talsmanna, leiði ekki til þess að umsækjandi hljóti efnismeðferð á grundvelli tímafrestsins í 2. mgr. 36. gr. laganna.“

Hér er áréttað sérstaklega í greinargerð og skýrt kveðið um á að ein breyting í þessu frumvarpi á núverandi lögum snúist um að láta börn líða fyrir ákvarðanir foreldra sinna, svipta þau réttinum á efnismeðferð á sinni umsókn vegna þess hvað foreldrar þeirra gera eða gera ekki. Á þetta er bent m.a. í umsögn Barnaheilla en þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að mati Barnaheilla að það sé skýrt að tafir á meðferð máls sem rekja megi til aðstandenda barns skuli aldrei túlka barni í óhag við málsmeðferð umsóknar þess, það skyldi aldrei koma niðri á barni ef aðstandandi þess er valdur að töfum því barn getur ekki og á ekki að bera ábyrgð á þriðja aðila.“

Hvað gerir meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar með þetta atriði? Ekki neitt, ávarpar þetta ekki einu sinni í sínu nefndaráliti. Kannski er ástæða þess að þetta ákvæði hefur komist alla leið hingað til 2. umr. sú að það var fyrst sett inn í þá útgáfu frumvarpsins sem kom út í fyrra, og ég tók þá þátt í umræðu um, og fólk hafi þá bara ekki verið nógu vakandi fyrir þessu. Þingmenn mega því spyrja sig að því núna og svara því hvort þetta sé virkilega það sem við viljum; að refsa börnum fyrir það sem foreldrar þeirra gera, hvort þetta sé að okkar mati í samræmi við regluna um að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Athugum það að hér erum við að tala um 12 mánaða tímafrest, svo það sé áréttað og útskýrt og sett í samhengi. Barnið er þá búið að vera hér í a.m.k. heilt ár en réttur til að fá efnismeðferð sinnar umsóknar, skoðun á því hvort það megi vera hérna áfram, fellur niður af því að foreldrar þess voru ekki nógu liðlegir. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvort er það barninu meira í hag að það fái efnismeðferð þar sem það er statt og hefur verið í a.m.k. ár eða að það sé rifið upp og sent eitthvað annað þar sem það þarf að fara í annað óvissuferli?

Ástæður þess að það þykir mikilvægt að refsa barninu fyrir ákvarðanir foreldranna eða umsjónaraðila eru síðan mjög óljósar. Það gildir bara frekar almennt um mörg ákvæði í þessu frumvarpi. Talað er um að borið hafi á hinu og þessu og þess vegna þurfi að herða einhverjar skrúfur til að auðvelda hlutina. Þetta er, má segja, innkaupalisti af þægilegum tækjum til að einfalda lífið í krefjandi umhverfi. Þetta umhverfi er vissulega krefjandi og hefur orðið krefjandi að undanförnu eins og margrakið hefur verið í þingræðum. Allt er þetta hugsað út frá kerfinu sjálfu en ekki fólkinu sem er skjólstæðingar þess. Það eru alls konar óskýr viðmið þarna, líkt og hefur verið rakið í fyrri ræðum, og óljóst tilefnið til setningar ýmissa ákvæða þrátt fyrir að markmiðið með frumvarpinu eigi að vera að skýra og einfalda. Ákvæði koma inn og fara út eftir stemningu hverju sinni. Er ekki líklegt að svona óskýr viðmið leiði til aukinnar óskilvirkni, bæði í framkvæmd hjá þeim sem þurfa að túlka þau og líka í formi þess að ákvarðanirnar séu jafnvel úrskurðaðar ógildar á öðrum stjórnsýslustigum? Fyrir mitt leyti segi ég: Já, það er einmitt líklegt að þetta leiði til aukinnar óskilvirkni. Þegar úrskurðir í þessum málum og dómar eru skoðaðir, og hvað er verið að fara yfir þar og hvaða skilyrði er t.d. verið að reyna að setja um hvenær umsækjandi telst hafa tafið mál, þá er mjög auðvelt að sjá fyrir sér aukið flækjustig. Þarna er löng upptalning á atriðum sem geta leitt til þess að umsækjandi teljist hafa tafið sitt mál, alls konar hlutir sem geta komið til álita. Þetta þarf allt að skrásetja vandlega og væntanlega að fylgjast með, hafa á hreinu að fólk sé vel upplýst um allar þessar kvaðir af því að ef það hefur ekki verið upplýst nægilega vel þá getur kærunefnd eða jafnvel dómstóll komist að þeirri niðurstöðu að tafirnar séu ekki sannarlega á ábyrgð umsækjenda.

Þetta eru náttúrlega hugrenningar en mér finnst þetta ekkert meiri hugrenningar í raun en frumvarpið sjálft byggist á. Af hverju er ekki hægt að fara í þessa átt og sjá fyrir sér flækjur rétt eins og aðrir sjá fyrir sér einföldun? Svo verður ekki hjá því komist að tala um hættuna á því að það verði hreinlega brotið á réttindum fólks. Það er í raun önnur leið til talað um óskilvirkni. Brot á réttindum leiðir til óskilvirkni. Fólki sem er umhugað um skilvirkni ætti því að sjálfsögðu líka að vera umhugað um að draga úr hættu á því að brotið sé á réttindum fólks. Við viljum hafa réttindin á hreinu. Allt sem dregur úr líkum á því að þau misskiljist eða að það sé hreinlega brotið á þeim leiðir að sjálfsögðu til skilvirkrar málsmeðferðar og dregur úr hættu á því að leita þurfi til annarra stjórnsýslustiga með tilheyrandi flækjustigi.

Í þessu frumvarpi er verið að reyna að herða alls konar skrúfur og flækja í stað þess að taka annan umgang af því að skoða þetta heildstætt, líkt og gert var þegar núverandi lög voru sett. Ákall um þetta hefur heyrst víða og ítrekað, m.a. frá stjórnarandstöðuflokkunum hér á þingi, frá félagasamtökum og frá ungliðahreyfingum. Hér í salnum hefur svo heyrst áhugi á því að gera þetta með þessum hætti en bara eftir að búið er að samþykkja þetta frumvarp, afgreiða þennan pakka, stundum með óljósum loforðum um að það verði búið að fara almennilega yfir frumvarpið þegar það kemur til 3. umr., sem sé að þá hafi þá verði tekinn enn einn snúningur á skaðaminnkun. Þótt ég sé almennt mjög hrifinn af skaðaminnkun þá á hún síður við þegar hægt hefði verið að fara þá leið að hreinlega útrýma skaðanum alveg. Í þessu tilfelli er það hægt með því hreinlega að sleppa þessu frumvarpi og fara beint í heildstæða skoðun í meiri sátt. Það væri besta leiðin. Í því samhengi má auðvitað draga það fram enn og aftur, eins og hér hefur eðlilega verið margítrekað, að aðstæður hafa breyst mjög hratt á skömmum tíma. Inn hefur komið flóttamannakrísan frá Úkraínu. Fólk frá Venesúela er líka áskorun. Hvorug áskorunin var til staðar þegar þetta frumvarp var fyrst sett fram. Ég tel þetta enn ein mjög skýru rökin fyrir því að það ætti að vera nokkuð skaðlaust að byrja svolítið upp á nýtt. Að skoða heildstætt er náttúrlega margtuggið en það hefur náttúrlega ákveðna merkingu og hún er svolítið öfug við það sem þetta frumvarp gengur út á, þ.e. að skoða mjög þröngt.

Ég ætla í lokin ætla að leyfa mér að velta því fyrir mér í alvörunni hvort þingmenn séu raunverulega í hjarta sínu sannfærðir um að besta leiðin sé bara að klára þetta frumvarp eða hvort sú afstaða snúist meira um skaðaminnkun og að friðþægja ráðherra sem vill ólmur koma þessu máli í gegn.