Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:41]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Við ræðum hér enn einu sinni tilraun núverandi ríkisstjórnar til þess að bæta að nokkru marki það regluverk sem við höfum sett um málefni útlendinga hér á landi. Þetta er í fimmta skiptið sem þessi tilraun er gerð til að gera þessa breytingu og mér sýnist að af allri sanngirni sé hægt að segja að jafnt og þétt hafi málið þynnst út eftir því sem tilraununum hefur fjölgað. Nú má segja að bitið sé orðið svo lítið að það sé á mörkunum að það sjáist mikill munur á þó að þetta fáist samþykkt. Hv. varaþingmaður, Halldór Auðar Svansson, kom inn á það hér áðan að þetta mál hefði verið til umræðu síðast þegar hann kom hér inn á þing og það er vissulega rétt að málið hefur verið rætt reglulega. En það má líka halda því til haga að þessum lögum hefur verið breytt 19 eða 20 sinnum síðan þau voru sett árið 2016 þannig að þau hafa með einum eða öðrum hætti verið til umræðu hér býsna oft. En alltaf strandar þessi tiltekna breyting, þegar á að reyna að koma einhverjum hömlum á þann gríðarlega kostnaðarauka sem hefur orðið við málaflokkinn á síðustu árum. Ég held að ég muni það rétt að það hafi verið árið 2015, gæti hafa verið 2014, sem heildarkostnaður við málaflokkinn var rúmar 700 millj. kr. Á síðasta ári var hann rúmar 10.000 milljónir, rúmir 10 milljarðar. Ég held að það sé enginn sem hafi á tilfinningunni að þeim fjármunum sé vel varið. Auðvitað greinir okkur hér inni svo á um það með hvaða hætti sú staða verður best færð til betri vegar.

Ef ég leyfi mér að byrja á að ræða aðeins fjárhagslegu hlið þessa málaflokks: Þeir 10 milljarðar sem eru núna tilgreindir sem heildarkostnaður málaflokksins á liðnu ári eru bein útgjöld er varða ríkissjóð. Það eru að öllum líkindum enn hærri upphæðir sem eru útgjöld, mögulega bein annarra eða afleiddur kostnaður sem má segja að aldrei náist almennilega utan um. Þessi staða hefur auðvitað verið að þróast með þessum hætti jafnt og þétt. Það kom hér upp í umræðunni fyrr í dag að við ættum ekki að ræða þessi mál út frá hlutföllum. Hlutföll ættu ekki við hjá íslenskri þjóð, jafn fámennri og hún er. En staðreyndin er sú að við höfum ekki við neitt annað að styðjast þegar við reynum að setja mál í samhengi við það sem gerist í nágrannalöndum okkar eða hvar sem er í heiminum ef út í það er farið. Þó að sumum okkar hugnist ekki að notast við hlutföll og tölfræði í þessari umræðu þá verð ég bara að biðja þá sem hugnast það illa að láta sig hafa það vegna þess að við verðum að gera það. Annað höfum við ekki. Við höfum ekki úr öðru að spila til að fá einhvern eðlilegan grundvöll undir umræðuna.

Þessi þróun mála sem hefur orðið hvað fjölgun umsókna varðar — þetta er ekki nýtilkomið, þetta kemur ekki til við upphaf stríðsins í Úkraínu. Þessi þróun var fyrir löngu komin af stað. Við horfðum á það, sennilega fyrir tæpum tveimur árum, áður en Covid brast á, að hlutföllin lágu þannig að umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi voru átta sinnum fleiri en í Noregi og Danmörku. Ef ég man rétt fjórum sinnum fleiri en í Finnlandi og rétt um tvisvar sinnum fleiri en í Svíþjóð. Þetta er áður en Covid-faraldurinn og stríðið í Úkraínu brestur á.

Það er fátt sem bendir til þess, ef við horfum á þróun mála hvað Úkraínu varðar, og setjum það svona kannski í sérbox ef svo má segja, að straumurinn sé ekki jafnt og þétt að vera stríðari. Það hefur komið fram í umræðunni á fyrri stigum að horfa verði á þá hópa sem koma frá Úkraínu og þá sem koma frá Venesúela með sambærilegum hætti og því verið haldið fram að það hafi verið ákvörðun stjórnvalda að móttaka þessara tveggja hópa væri með þeim hætti sem hún er. Það má auðvitað til sanns vegar færa. En staðreyndin er auðvitað sú að ákvörðun um móttöku þessara tveggja hópa, því að þeir hafa oft verið ræddir hér í dag, er tekin með gjörólíkum hætti. Ákvörðun sem varðar Úkraínumenn er tekin hér á Alþingi. Ákvörðun sem snýr að Venesúela, fólki þaðan, er tekin hjá kærunefnd úrskurðarmála. Það hefur verið talað um, í öðru máli í dag, að málið ætti að koma til umræðu í Alþingi, rétt eins og mér þætti að það ætti að koma til umræðu á Alþingi hvort Landsvirkjun ætti að selja aflátsbréf til útlanda, en það hefur verið lítil stemmning fyrir því. En mér þykir svo sannarlega að málefni er varða móttöku flóttamanna frá Venesúela ættu að koma til umræðu sem sjálfstætt mál í þinginu. Það getur ekki verið meiningin með úrskurðarnefnd eins og kærunefnd útlendingamála að framkvæmd sé gjörbylt eins og hefur gerst með úrskurðum þeirrar nefndar. Það er ekkert í þessu máli, sýnist mér, sem færir það til skynsamlegri vegar og ekkert mál, að því er ég best veit, sem er væntanlegt inn í þingið. Síðan koma sjónarmið, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, minnir mig að hafi verið, benti á í dag, að mikill meiri hluti þeirra sem hafa komið frá Venesúela væri kominn til starfa, væri búinn að festa sér vinnu hér á Íslandi og það er auðvitað bara jákvætt. En enn og aftur þá undirstrikar það kannski hversu gjarnir menn eru á að grauta saman þessum málaflokkum, vinnumarkaðsþættinum annars vegar og verndarþættinum hins vegar. Á meðan okkur tekst ekki að kljúfa bærilega þarna á milli er ég hræddur um að við verðum föst í þessum hjólförum sem við höfum verið í núna um allnokkurt skeið.

Ég held að það sé beinlínis mótdrægt hagsmunum þeirra sem raunverulega sækja hingað vernd vegna ótta um líf og limi að við hér heima séum að grauta málaflokkunum saman með þessum hætti. Þetta eru tvö aðskilin mál og ef það á að nota það sem rök fyrir sem opnustum landamærum, ég nota það orðalag bara til einföldunar, að hér vanti vinnandi hendur þá þurfum við að leysa það í gegnum vinnumarkaðsregluverkið, ekki í gegnum verndarkerfið. Það er vísasti vegurinn til að mylja stoðirnar undan verndarkerfinu. Ég held að það væri til mikilla bóta ef okkur tækist það.

Aðeins að hlutföllunum aftur. Ég nefndi hér áðan hlutföllin sem voru áður en Covid brast á og töluvert áður en stríðið í Úkraínu brast á. Áttfaldur fjöldi umsókna á Íslandi miðað við Danmörku og Noreg, þrefaldur til fjórfaldur miðað við Finnland og rúmlega tvöfaldur miðað við Svíþjóð. Á árunum 2015–2016 var við lýði svokölluð, með leyfi forseta, „Open Door Policy“, sem sagt opin hurð, í Þýskalandi undir forystu Angelu Merkel. Þegar við skoðum hlutfallstölur þar erum við að taka við fleirum á liðnu ári en á þeim tíma í Þýskalandi þegar hurðin var opin, bara komi þeir sem koma vilja. Það sýnir kannski að þeir seglar, sem virðast vera viðvarandi og verða áfram að þessu frumvarpi samþykktu og að því óbreyttu, hafa auðvitað orsakað þessa þróun.

Ég held að það sé að mörgu leyti ábyrgðarhluti okkar þingmanna að ræða ekki þau áhrif sem þessi séríslensku ákvæði hafa. Þó að það sé að einhverju marki sagt í gríni er þessi fjöldi ekki að koma hingað og sækja í veðrið, það er bara ekki þannig. Það eru önnur réttindi sem orsaka það að straumurinn er jafn stríður og raunin er. Okkur ber beinlínis skylda til að ræða þetta opinskátt og reyna að átta okkur á því hver þessara séríslensku segla er að hafa mestu áhrifin. Þegar umfangið verður meira en við ráðum við, þegar umfangið verður meira en stoðkerfin okkar ráða við, hvort sem það eru skólarnir, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfin önnur, húsnæðismálin sem eru nú í jafn snúinni stöðu og við þekkjum og svo mætti áfram halda — þegar þessi innlendu kerfi okkar hætta að ráða við þann þunga sem á þeim lendir verður okkur erfiðara um vik að hjálpa þeim sem mestrar hjálpar eru þurfi og geta okkar þynnist út til að gera þeim sem mest þurfa á að halda mikið gagn. Ég held að það sé eitthvað sem enginn okkar vill raunverulega. Það eru alveg örugglega tillögur hér í salnum sem snúa að því að vinda ofan af þessari stöðu, mögulega með opnari leiðum og auknu svigrúmi fyrir fólk að koma hingað og starfa. En þá lendum við aftur á þessum sama stað, að við verðum að hætta að grauta saman vinnumarkaðsmálum og verndarkerfinu. Um leið og við komumst þangað held ég að við gætum farið að tala á einhverjum skynsamlegum forsendum um þær tillögur sem lúta að því að gera ákveðnum hópum auðveldara um vik að koma hingað og starfa.

Það er einhvern veginn þannig að frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram af þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, hefur í hverri framlögn fyrir sig verið tálgað eitthvað af því biti sem ætlunin var að hafa í þessari uppfærðu löggjöf eða þessum breytingum sem átti að gera á lögum um útlendinga. Nú er svo komið, og það var í raun sérstök upplifun að hlusta á framsögu framsögumanns nefndarálits meiri hluta, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, þegar samfellt í gegnum ræðuna var verið að slá í og úr, en aðallega úr; það var verið að draga fram varnagla sem voru til þess ætlaðir að draga úr áhrifum frumvarpsins og minnka þau áhrif sem frumvarpið gæti haft til að senda skilaboð. Það er nefnilega eitt sem við verðum sömuleiðis að ræða í þessum sal, að þetta umhverfi hverfist svo mikið um þau skilaboð sem þjóðir senda frá sér. Það kom fram fyrr í umræðunni að finnsk stjórnvöld hafa verið alveg rasandi yfir því þegar skyndilega fjölgaði umsóknum, ef ég man rétt, um 65.000 á stuttu tímabili. Tilefnið var einhver smávægileg breyting sem enginn hafði séð fyrir sér að hefði nein áhrif. 65.000 aukaumsóknir til Finnlands, í góða veðrið. Þessi skilaboð sem stjórnvöld senda frá sér — við sjáum bara hvaða áhrif það hefur haft. Ég t.d. tel fullvíst að dönsk stjórnvöld hafa ekki beitt öllum þeim úrræðum sem þau hafa fengið sér í tengslum við málefni útlendinga heldur draga skilaboðin sem eru send út á við úr vilja og löngun þeirra sem gera sér bágt ástand fólks að féþúfu til að standa í þeim slag að stýra straumum sínum á slíkan stað. Og hvert fer fólksfjöldinn þá í staðinn? Þangað sem við viðtökur kerfisins, réttindin, tímalengdirnar, kærufrestirnir, gefa mest svigrúm og í augnablikinu virðist það vera Ísland ef við horfum til þeirra landa sem næst okkur liggja. Af þessu hlýst gríðarlegur kostnaður, sem ég leyfi mér að fullyrða að mjög fáum hér inni líði sérstaklega vel með þó að forsendurnar geti verið mismunandi varðandi það hver lausnin eigi að vera á þeirri þróun.

Við verðum, hvernig sem best er að orða það, að horfast í augu við það að skilaboðin sem stjórnvöld senda frá sér eru mögulega það mikilvægasta í öllu þessi máli til þess að þeim fækki sem hingað koma á forsendum þeirra sem hafa gert sér neyð viðkomandi að féþúfu og þeim fjölgi mögulega á móti, hlutfallslega og í tölum talið, sem koma hingað í gegnum hin hefðbundnu kerfi, t.d. kvótaflóttamannakerfi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það væri til mikils vinnandi að við breyttum þessum hlutföllum og það verulega.

Síðan er það annað, bara svona til að loka þeim hluta ræðu minnar sem snýr að tölum: Hingað til lands komu 5.000 manns á liðnu ári. Ég bara gef mér, og ég held að flestir séu þeirrar skoðunar og sérstaklega Úkraínufólkið sjálft, að flestir vilji komast heim aftur þegar stríðinu er lokið. En það er engu að síður þannig, og ég ímynda mér að hlutföll annarra hópa umsækjenda séu kannski aðeins öðruvísi hvað það varðar en þeirra sem koma frá Úkraínu, að íslenskt samfélag, ef við horfum yfir lengri tíma, að þróunin hefur verið að gerast ógnarhratt hvað fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd varðar og fjölgun þeirra sem fá vernd. Ef við horfum á þróunina með þessum hætti, og nú er ég ekki að segja að hún verði línuleg út í hið óendanlega, það eru litlar líkur til að það yrði í raunin, þá væru velferðarkerfin okkar fyrir löngu hrunin áður en að því kæmi yfir einhvern viðvarandi tíma og þar með færi sjarminn af því að senda hópa hingað. Ég held engu að síður, ef við horfum bara á þær tölur sem fyrir okkur hafa legið undanfarin tvö ár, sérstaklega í fyrra, og það sem við sjáum fyrir okkur í byrjun þessa árs, að þetta muni áfram reyna alveg gríðarlega á þau stoðkerfi sem við höfum byggt hér upp undanfarna áratugi, alveg gríðarlega. Það er þáttur sem við stjórnmálamennirnir verðum að leggja mat á, hver áhrif þess verða, til að mynda hvað varðar vilja fólks til þess að taka við þeim sem eru í mestri neyð. Ef staðan er sú, eins og við þekkjum nú ábyggilega flest sögur af hér á undanförnum vikum og mánuðum, hversu snúið það hefur verið fyrir hinn hefðbundna leigjanda á Íslandi að verða sér úti um leiguhúsnæði — það hefur orðið erfiðara á undanförnum mánuðum. Það væri alger barnaskapur að halda því fram að sá fjöldi sem hingað hefur komið til að flýja hörmungar eða leita sér betra lífs hafi ekki áhrif þar á. Það er auðvitað að hafa áhrif og það veruleg. Ég held því að við verðum líka að taka ábyrgð á því, a.m.k. gera það upp við okkur, að það sé meðvitað, að við sættum okkur við þau áhrif að við aukum á líkurnar á því að andstaða skjóti rótum vegna þeirra áhrifa sem fjöldi sem við ráðum ekki við hefur á kerfin okkar, velferðarkerfin, húsnæðismál og annað. Verði það raunin þá er engum greiði gerður með þeirri þróun sem hér hefur orðið, ef við horfum á þetta raunsætt.

Ég ætla að láta þetta duga hér sem fyrstu ræðu mína í þessari 2. umr. Tíminn er við það að hlaupa frá mér. Ég bara ítreka það, í ljósi þess að því hefur þegar verið flaggað að málið verði kallað inn til nefndar milli 2. og 3. umr., að ég held að það væri ekki galið að greina þá þætti sem ég hef nefnt hér þannig að við séum í öllu falli með opin augun að taka ákvörðun um að gera hluti með þeim hætti sem nú liggur fyrir. Ég held að það væri að mörgu leyti til bóta að færa frumvarpið nær því fyrirkomulagi sem lagt var til þegar það var fyrst lagt fram hér á 149. þingi af þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Ásthildi Andersen.