Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[22:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst nokkur orð varðandi Þýskaland. Það voru 1,2 milljónir sem komu til Þýskalands á árunum 2015 og 2016, ég man ekki alveg hvernig hlutfallið var á milli áranna, en þetta setti auðvitað þannig þrýsting á stoðkerfin þar að það var einmitt horfið frá, og það var auðvitað pólitísk ákvörðun, þessari stefnu um opnar dyr, „open door policy“, með leyfi forseta, árið 2017, mögulega 2018, ég man ekki hvorum megin hryggjar það lá. Ég held að þetta sé einmitt það sem Þjóðverjarnir eru að gera núna varðandi það að auðvelda og styðja við aðlögun að þýsku samfélagi. Það er það sem auðvitað verður að gerast alveg frá fyrsta degi. Það held ég að við ráðum illa við nema fjöldinn sem hingað kemur sé einhvern veginn með öðrum hætti og innan þeirra marka sem velferðarkerfin okkar, menntakerfið, heilbrigðis- og húsnæðismálin, ráða við. Ég held að við séum algjörlega sammála um að þetta sé að mörgu leyti mikilvægast hvað það varðar þegar fólk kemur hingað á flótta, að því sé auðveldað að aðlagast samfélaginu.

Hv. þingmaður spurði mig hvaða leiðir ég teldi bestar til að fækka þeim sem hingað koma. Var það rétt skilið? Greip ég spurninguna ekki rétt, hv. þingmaður? Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að skoða það alvarlega hvort við ættum til að mynda að ýta meginþunga þeirra umsókna sem hingað berast til nærsvæða þess fólks sem er á flótta, sem sagt fjær okkur, þannig að við værum að styðja við alveg frá því að fólk kemur til landsins, og raunar áður, hópa (Forseti hringir.) sem hafa verið valdir hingað inn til þess að hefja hér nýtt og vonandi betra líf, þó að önnur sjónarmið eigi síðan við um Úkraínumennina, eins og ég fór yfir áðan. Þetta er ein tiltekin aðgerð sem ég held að væri til mikilla bóta.