Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni yfirvalda er að stuðla að heilnæmri þéttingu byggðar um heim allan og Ísland er þar engin undantekning. Við verðum að efla almenningssamgöngur og virka ferðamáta beint á kostnað einkabílsins. Þetta er forgangsatriði ef við ætlum að ná markmiðum okkar um kolefnishlutleysi. Að sama skapi þarf að gera fólki kleift að búa í öruggu og heilnæmu húsnæði. Reykjavíkurborg er með á nótunum. 2.500–3.000 leiguíbúðir og búseturéttaríbúðir hafa verið byggðar á undanförnum árum, auk 600 íbúða fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur, auk þess sem leigueiningum Félagsbústaða hefur fjölgað um önnur 600. Nú hefur verið undirritaður húsnæðissáttmáli milli ríkisstjórnar og fulltrúa sveitarfélaga og markmið jafnaðarmanna ná vonandi fram að ganga því planið nær yfir 23 ára tímabil og gefur af sér samtals 6.600 hagkvæmar og félagslegar íbúðir ef allt gengur eftir. En nú þarf að hefjast handa á þeim svæðum sem nú þegar eru tilbúin og deiliskipulagið er sömuleiðis tilbúið. Hérna erum við að tala um þau svæði þar sem er hægt að byrja að byggja strax. Nú bíða 685 fjölskyldur t.d. eftir því að flytja í hverfið í Nýja Skerjó. Hér erum við að tala um stúdentaíbúðir fyrir nema á landsbyggðinni sem og fjölskyldufólk. Ég minni á að skipulag Nýja Skerjó byggir á samkomulagi við ríkið frá 2013 sem gerir ráð fyrir því að Reykjavíkurborg fái afsal og óskoraðan yfirráðarétt yfir landinu.

Herra forseti. Erum við virkilega stödd á þeim stað að Reykjavíkurborg þurfi að undirbúa aðra málshöfðun gagnvart ríkinu þegar blekið er ekki orðið þurrt á húsnæðissáttmálanum mikla í því skyni að fá aðila máls til að standa við sitt í Nýja Skerjó? Látum það ekki gerast, stöndum við húsnæðissáttmálann og hefjum uppbyggingu.