Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem úr sveitarfélagi sem er eitt fárra sveitarfélaga á Íslandi sem hefur verið með samning um samræmda móttöku flóttafólks. Ég hef setið í bæjarstjórn sem hefur einmitt verið að fjalla um þessi mál og þurft að sinna þessum málaflokki mikið þannig að ég þekki kannski stöðu þessara einstaklinga sem hingað hafa komið af eigin raun. Ég vil bara lýsa því yfir hér að ég get ekki sagt annað en að við, kjörnir fulltrúar á þeim tíma, vorum mjög óánægð með samskipti okkar, bæði við kjörna fulltrúa á Alþingi en ekki síður við Útlendingastofnun. Manni þótti sárt að sjá, þegar við höfðum lagt okkur í líma við að sinna þeim hópi sem við höfðum tekið í þjónustu, að Útlendingastofnun sveifst einskis við að leigja bara autt húsnæði uppi í Ásbrú til að hrúga þar inn fólki án eftirlits og án einhverrar þjónustu. Maður upplifði það í sveitinni að fara í fjárhúsið á kvöldin og gefa á garðinn, þetta var nánast einhvern veginn þannig.

Hv. þingmaður nefndi hér tilgang og markmið og sagði m.a. að hún fengi ekki séð að þetta frumvarp myndi ná þeim markmiðum sem að væri stefnt. Þá spyr maður: Hver eru hin raunverulegu markmið? Hvað er verið að gera með þessum breytingum? Er kannski verið að reyna að koma í veg fyrir að fólk á flótta leiti til Íslands?