Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 55. fundur,  25. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Þetta er það sem ég hef verið að reyna að segja: Nei, ég held að það sé ekki einu sinni markmiðið, hið raunverulega markmið, að koma í veg fyrir að fólk geti komið hingað og annað. Ég held að hugsunin nái ekki einu sinni þangað. Það er það sem ég á við þegar ég segi að jafnvel þó að maður ætlaði sér að vera góður rasisti þá væri þetta samt ekki gott frumvarp.

Þegar maður hefur mikla reynslu í málaflokknum sér maður í gegnum frumvarpið öll málin sem Útlendingastofnun hefur tapað, hjá kærunefnd og hjá dómstólum. Mig grunar að það sé það sem þetta frumvarp sprettur af, einhver svona samtíningur, einhver óskalisti sem fer frá Útlendingastofnun, þetta er mín ágiskun, til ráðuneytisins í hvert skipti sem þau tapa máli.

Ég held að það sé svolítið meira þannig að þau vita ekki alveg hvernig á að gera hlutina og gera eitthvað sem er, held ég, byggt á mjög röngum viðhorfum og jafnvel fordómafullum viðhorfum og ómannúðlegum. Ég ætla ekkert að saka fólk um að vera vont, ég trúi ekki að fólk sé vont, en ég held að það geti myndast kerfisbundin ómannúðleg menning. Þar er ekki kannski ekki endilega við einhverja einstaklinga að sakast, heldur er það bara þannig, og við höfum séð þetta í mannkynssögunni, við sjáum þetta út um allt. Það er skrýtið og við vitum ekki alveg hvers vegna það gerist en þetta getur gerst. Það eru viðhorfin sem gera það að verkum að þegar Útlendingastofnun tekur einhverja ákvörðun — hún telur auðvitað allar sínar ákvarðanir vera réttar en síðan fær hún þær aftur í andlitið og þá er það sett á einhvern lista og sá listi fer svo upp í ráðuneyti. Það er svona sem ég held að þetta frumvarp hafi orðið til.

Það er engin heildarsýn þarna á bak við. Það er engin heildarhugsun. Það er engin straumlínulögun eða einhver útpæld stefna þarna á bak við, ekki að mínu mati. Það er það sem ég á við þegar ég segi: Það er alveg sama hvernig á það er litið, þetta frumvarp er bara mjög vont.