Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2023.

stefna í sjávarútvegsmálum.

[10:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Nú hefur einn stærsti starfshópur sem skipaður hefur verið af ráðherra skilað drögum til hæstv. matvælaráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, drögum um sjávarútvegsmálin, um kvótamálin okkar, drögum um það hvernig best og gerst eigi að haga málum þar sem þjóðin er ekki sátt. Hún er ekki sátt við stöðuna eins og hún er í dag.

Ein af þessum tillögum er t.d. sú að hreinlega þurrka út strandveiðikvótann, taka þessi aumu 5,3% sem hefur verið úthlutað til litlu sveitar- og sjávarplássanna sem eiga náttúrlega í vök að verjast nú þegar. Mig langar að nefna að ég er fædd og uppalin í einu slíku, sem heitir Ólafsfjörður, þar sem voru tugir báta, togara, smábáta, netabáta, þar sem var líf og fjör úti um allt, þar sem voru tvö risastór frystihús og tugir sjóhúsa, þar sem hver einasti Ólafsfirðingur gat valið um þá vinnu sem hann vildi fá og laut að sjávarútvegi. Það er ekkert eftir nema tvær trillur í þessu litla sjávarplássi.

Mínar vangaveltur um þetta núna eru þær að í ljósi þessa langar mig einnig að benda á þessa gríðarlegu samþjöppun í greininni. Það má t.d. nefna Þormóð ramma. Sæberg í Ólafsfirði kaupir upp tapreksturinn hjá Þormóði ramma til að losna við að greiða skatta og skyldur til okkar, samfélagsins — frekar er tapreksturinn keyptur til að þurfa ekki að borga krónu, ekkert frekar en þau gera fyrir aðganginn að auðlindinni. Nú er Ísfélagið í Vestmannaeyjum komið í eina sæng með þessu fyrirtæki, Þormóður rammi-Sæberg-Síldarvinnslan.

Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hefur ráðherra ekki áhyggjur af því hvert við raunverulega erum að stefna? Svo ég vendi nú mínu kvæði í kross og komi með eitthvað rosa fyndið inn í þetta: Hvað fannst hæstv. ráðherra um Verbúðina sem allir Íslendingar sáu? (Forseti hringir.) Hvað var hæft í þeim þætti og erum við að stefna enn þá lengra og eigum við kannski von á annarri þáttaröð?